Borghildur Tumadóttir
borghildur [at] gmail.com

Ferlið hefst á því að hlutur úr umhverfinu dregur að sér athyglina. Form hlutarins festist í huganum. Það fær nýtt samhengi gegnum síendurtekna teikningu, bæði huglægt og rýmislegt. Teikningin er yfirfærð í þrívítt efni, svo aftur verður til hlutur. Hann fer að virka sem einhverskonar vídd, ekki endilega sem teikning eða skúlptúr. Hann er kúlulaga, ferhyrndur, holur að innan og gegnsær. Ferhyrndi parturinn sést í gegnum þann kringlótta. Upprunalegur tilgangur hlutarins hverfur.

Það bætast við fleiri hlutir, hver fyrir sig umbreyttur, nýr og sjálfstæður.  Hlutirnir vísa í teikningarnar, þeir eru samsettir úr efniskenndum línum. Skúlptúrinn er þrívíð teikning. Hlutföllin ráðast út frá innbyggðum mælikvarða líkama og hugar.

Hreyfing, tími, stærð, flötur, þrívídd eru fyrirbæri sem við skiljum að einhverju leyti. Okkur hættir til að skilja eða nema hluti útfrá viðtekinni vitneskju, út frá því sjónarhorni sem gefið er, og trúa að það sé veruleikinn. Líkt og í helli Platons þar sem við sjáum eingöngu skugga hlutanna og byggjum svo heimsmynd okkar út frá þeirri sýn.

Staðsetning hlutanna ræðst að hluta til af ljósinu í rýminu, og því hvar þeir ná að dreifa sem mest úr sér með myndun skugga. Úr þeim verður heildarmynd samsett úr mismunandi sjónarhornum og skynjunum. Rými myndar hluti og hlutir mynda rými.