Sviðshöfundanám
Athugið að ekki er tekið við umsóknum í sviðshöfundanám fyrir skólaárið 23/24, opnað verður fyrir umsóknir haustið 2023.
Í sviðshöfundanámi er unnið með hlutverk sviðshöfundarins í sviðslistum þ.e. leikstjórans, leikskáldsins eða sviðslistamannsins. Megin áhersla er lögð á að nemendur þrói með sér listræna sýn og nálgun við miðilinn sem höfundar og verði að námi loknu sjálfstæðir skapandi sviðslistamenn.
Í náminu, sem er jöfnum höndum fræðilegt og verklegt, er lögð áhersla á sviðslistir í sem víðustum skilningi og er námið hugsað sem vettvangur fyrir tilraunir og rannsóknir innan sviðslista. Námið snýst um sögu, eðli, hlutverk og mörk sviðslista, tungumál þeirra og snertifleti við aðrar listgreinar.
Mikil áhersla er lögð á frumsköpun nemenda og á að þeir þrói með sér nálgun og aðferðir við sviðsetningu og sköpun sem styrkja sýn þeirra á miðilinn. Námsleiðinni er ætlað að renna stoðum undir gagnrýna sýn nemandans á listgreinina, umhverfi sitt og eigin verk.
Hvert ár í náminu hefur ákveðna yfirskrift: fyrsta árið er ár uppgötvunar, annað ár ár tilrauna og þriðja ár ár höfundarins.
Á fyrsta ári er megináhersla lögð á að byggja upp fræðilegan grunn þar sem grundvallarspurningum um form, hefðir og aðferðir er velt upp. Nemendur kynnast helstu kenningum sem snerta leiklist og aðrar sviðslistir auk helstu kenningum í hugmyndasögu frá seinni hluta tuttugustu aldar fram til samtímans. Sjónum er beint að einstökum þáttum sviðslistanna, svo sem hugmyndavinnu, sviðsetningu, texta og líkama, hvernig þessir þættir vinna saman og víxlverkun þeirra er rannsökuð, bæði með fræðilegum eða sögulegum athugunum og verklegum sviðsetningum og tilraunum.
Á öðru og þriðja ári eykst áhersla á skapandi vinnu nemenda út frá þeim kenningum og aðferðum sem kenndar hafa verið á fyrsta ári. Nemendur þróa sína eigin listrænu sýn og nálgun við miðilinn í gegnum vinnu við sviðsetningar og önnur sviðsverk út frá ólíkum nálgunum s.s. samsetningaraðferðum (devised) og hlutverki leikstjórans og leikskáldsins. Náminu lýkur með opinberu lokaverkefni og ritgerð.