GÆÐAKERFI

Gæðakerfi Listaháskóla Íslands miðar að því að mæta væntingum og þörfum nemenda, starfsmanna, starfsvettvangi listanna og hins alþjóðlega samfélags fræðasviðs lista. Markmið gæðakerfisins er að efla gæði háskólastarfsins og tryggja að prófgráður og rannsóknir uppfylli alþjóðleg viðmið, og er kerfið þannig uppbyggt að styðji við gæðamenningu innan skólans alls. Uppistaða kerfisins er þríþætt; Stefna Listaháskóla Íslands 2017-2023, Rammaáætlun Gæðaráðs íslenskra háskóla um eflingu gæða á sviði æðri menntunar á Íslandi 2017-2023 (e. Icelandic Quality Enhancement Framework – QEF2), og Kröfur og leiðbeiningar fyrir gæðatryggingu á sviði æðri menntunar í Evrópu (e. Standards and Guidelines for Quality Assurance in the European Higher Education Area – ESG 2015). Gæðastarf Listaháskólans er umbótamiðað, opið og gegnsætt, þar sem ábyrgð og skyldur eru skilgreind með skýrum hætti og samvinna sviða, deilda og starfseininga tryggð. Nánar má lesa um gæðakerfi LHÍ hér.

GÆÐASTEFNA LISTAHÁSKÓLANS 

Gildi Listaháskólans eru forvitni, skilningur og áræði, og byggir gæðastefna skólans á þessum gildum, auk siðareglna og heildarstefnu skólans hverju sinni.

Stefna skólans í gæðastarfi er að: 

  • Þróa gæðakerfi Listaháskólans í anda umbótamiðaðs gæðastarfs, og aðlaga það að Rammaáætlun Gæðaráðs íslenskra háskóla.
  • Stuðla að virkri gæðavitund starfsmanna með skipulagðri umræðu, fræðslu og þjálfun, og þróa sífellt leiðir til að efla samvinnu og gæðavitund meðal starfsmanna skólans. 
  • Að tryggja þátttöku nemenda í gæðastarfi skólans, með virkri aðkomu fulltrúa Nemendaráðs (í ytri úttekt) og Nemendafélaga allra deilda (í innra gæðastarfi).
  • Að tryggja eftirfylgni með stefnu skólans og samhæfingu með markmiðum í gæðastarfi. 
  • Að þróa árangurs- og gæðavísa í því markmiði að leggja línurnar fyrir lykilmælikvarða um árangur á sviði gæðastarfs. 
  • Að tryggja eftirfylgni með sjálfsmati deilda og að tryggja straumlínulögun aðgerðaáætlana deilda og skólans í heild. 
  • Að tryggja eftirfylgni með stofnunarúttekt með skýrri forgangsröðun og aðgerðaáætlun. 
  • Að tryggja eftirfylgni með innri könnunum og endurgjöf nemenda sem gefa vísbendingar um upplifun og reynslu þeirra af námi við skólann, og að nemendur séu ávallt upplýstir um þær umbætur og áætlanir sem gerðar eru í kjölfar endurgjafar þeirra. 
  • Að framfylgja ákvæðum um söfnun og opinbera birtingu lykiltalna og annarra gagna í tengslum við innra mat. 
  • Að veita áreiðanlega yfirsýn yfir stöðu og þróun starfsemi skólans, sem gerir kleift að meta árangur af umbótum, framvindu verkefna og næstu skrefum í gæðastarfi skólans. 
  • Að gögn og upplýsingar, sem notast er við í sjálfsmati deilda sem og stofnunar, séu áreiðanleg og reist á rökum og safnað með reglubundnum hætti úr ranni skólans, auk þess að taka mið af nýjustu rannsóknum og þróun á starfsvettvangi lista.