Nám í Listaháskólanum er tvenns konar: nám í listum og nám í listkennslu og miðlun. Nám í listum greinist eftir listgreinum en listkennslan og miðlunin byggir á samþættingu kennslufræði og listþekkingar. Skólinn beitir sér fyrir þverfaglegu starfi og nýtir sér einstaka möguleika sína til faglegs starfs þvert yfir listgreinar. 

Viðfangsefni menntunarinnar eru skilgreind í fjóra meginþætti, þ.e. þekkingu, sköpun, skilning, og leikni, og taka skilgreiningar á námsviðmiðum mið af þeim. Lögð er megináhersla á að nemandinn geti hugsað og starfað sjálfstætt, og hafi þá kunnáttu og leikni til að bera að hann geti starfað sem atvinnumaður í sinni grein.

Listnáminu má skipta gróflega í þrjá meginþætti, þ.e. vinnustofunám, fræðinám, og tækni. Í höfundanámi, s.s. í sjónlistum og tónsmíðum, er þetta hlutfall nálægt því að vera samsett þannig að um helmingur námsins er í vinnustofum, um þriðjungur er fræðinám, og svo um fimmtungur tækninám. Í greinum listflutnings eru þessi hlutföll breytilegri, en megináherslan er þar á þjálfun einstaklingsins með eigin líkama, s.s. í leikaranámi eða söng, eða tækniþjálfun á afmörkuðu sviði, s.s. í hljóðfæraleik. Í fræðináminu fléttast þræðirnir til allra annarra þátta námsins, og skapar það aukna meðvitund hjá nemandanum um eðli og samsetningu verkefnanna sem við er að fást.