Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

Myndlist BA

Decor overlay

Í náminu kynnast nemendur ólíkum aðferðum og nálgunum við listsköpun og þjálfa með sér persónuleg vinnubrögð. 

 • Opnað fyrir umsóknir

  9. janúar 2024

 • Umsóknarfrestur

  12. apríl 2024

 • Umsóknum svarað

  Maí / júní 2024

 • Skrásetningargjald

  Skoða nánar

 • Nafn námsleiðar

  Myndlist BA

 • Nafn gráðu

  BA

 • Einingar

  180 ETC

 • Lengd náms

  6 annir – 3 ár

Information is provided in Icelandic for study programmes that have Icelandic as the primary language of instruction.

Um námið

Námið er vettvangur námskeiða, sjálfstæðrar vinnu, samstarfsverkefna, tilrauna í efnum og aðferðum hvort sem um verklega eða fræðilega vinnu er að ræða.  

Myndlist er fjölbreytt fag og endurspeglar námsframboðið í BA námi þá fjölbreytni. Námskeið taka ýmist fyrir grunnþekkingu tengda aðferðum myndlistar, sögu eða listfræði sem nemendur spegla í eigin listsköpun. Í valnámskeiðum þróa nemendur áfram sína sérþekkingu. Í öllum námskeiðum er frumsköpun grunnforsenda. 

Allir nemendur hafa eigin vinnustofu á meðan á náminu stendur þar sem viðfangsefni eru þróuð yfir lengri tíma í samtali við kennara, gesti og samnemendur. Umsjónarkennarar fylgja nemendum í gegnum námstímann og veita persónulega leiðsögn á sama tíma og nemendur kynnast fjölda stundakennara sem koma að starfi deildarinnar. Námskeiðum lýkur með yfirferðum þar sem nemendur þjálfast í gagnrýnum umræðum um eigin verk og verkefni samnemenda. 

Á námstímanum hafa nemendur tækifæri til lengra og styttra skiptináms í gegnum Erasmus eða Kuno, samstarfsnet Norrænna listaháskóla. 

Uppbygging náms

BA nám í myndlist er fullt nám (180 ECTS einingar) til þriggja ára. Í myndlistardeild er lögð áhersla á að nemendur geti kynnst fjölbreyttum aðferðum og nálgunum við listsköpun og fræðilega hugsun. Námið er samsett af vinnustofu-, fræða- og verkstæðis námskeiðum. 

1 ár: Námskeiðin á fyrsta ári leggja grunninn að öllu náminu. Þar eru kynntar aðferðir, bæði tækni og grunnur í samhengi myndlistar í samtímanum og sögulegu samhengi.  

2 ár: Á öðru ári velja nemendur lengri námskeið sem ganga út á að dýpka þekkingu á miðlum og aðferðum. Valnámskeið á 1. og 2. ári bjóða upp á valnámskeið m.a. í öðrum deildum LHÍ og sértæk þemanámskeið sem kanna strauma og stefnur í faginu.  

3 ár: Á þriðja ári vinna nemendur sjálfstætt að gerð einkasýningar, skrifa BA ritgerð og vinna að verki fyrir samsýningu á opinberu listasafni. 

Að loknu námi

Nám í myndlist á BA stigi undirbýr nemendur fyrir meistanám og fjölbreytt störf á fagvettangi myndlistar og menningar. 

Útskrifaðir nemendur frá myndlistardeild eru meðal fremstu myndlistarmanna landsins. Sú þekking sem námið færir nemendum nýtist í öllu starfi þar sem forvitni og rannsóknir liggja til grundvallar. 

Umsóknar- og inntökuferli

Umsóknarferli

 • Rafræn umsókn er fyllt út í umsóknargátt. Umsóknarfrestur er 12. apríl 2024.
 • Athugið: fylla þarf út alla stjörnumerkta reiti og hengja við þau skjöl sem óskað er eftir, greiða umsóknargjald og staðfesta umsókn.
 • Staðfest afrit af prófskírteini (ljósrit gildir ekki) með stimpli frá viðkomandi skóla og skannað námsferilsyfirlit og hengt við rafræna umsókn.
 • Ef fylgiskjöl eru ekki í lagi, fær umsækjandi póst og möguleika á að lagfæra umsóknina.
 • Umsækjandi fær staðfestingu á að rafræn umsókn sé fullgild.
 • 1. Mappa / Portfolio

  Skylda
  • Skilafrestur á efnislegri eða rafrænni möppu/portfolio er 12. apríl 2024
  • Athugið að velja þarf á milli efnislegrar eða rafrænnar möppu/portfolio og láta vita í reitnum í umsóknargátt ef efnislegri möppu/portfolio er skilað. 
  • Ef verið er að sækja um á fleiri námsleiðum eða deildum, þarf að skila inn umsókn og möppu/porfolio fyrir hverja námsleið/deild.
  • Skila skal efnislegri möppu/portfolio eða senda hana með pósti á Laugarnesveg 91, 105 Reykjavík. Skrifið Umsókn myndlist á sendinguna.
  • Athugið að inntökuferlið er nafnlaust, en við biðjum þig að lesa vel yfir leiðbeiningarnar hér fyrir neðan varðandi merkingu á möppu:
  Að merkja möppuna
  • Ef mappan þín er efnisleg þarft þú að láta fylgja með möppunni blað þar sem kemur fram skýrt fullt nafn og kennitala. Þetta blað verður tekið í burtu áður en inntökunefnd fær möppuna í hendurnar.
  • Ef mappan þín er rafræn þarftu að vista skrána með fullu nafni og kennitölu. Þeim upplýsingum verður breytt áður en inntökunefnd fær möppuna í hendurnar.
  Umsækjendur skulu safna sýnishornum af verkum sínum saman í möppu (portfolio), á pappírsformi eða í .pdf skjali. Miðað er við að mappan sé að hámarki í stærð A3 eða að hámarki 80mb .pdf skjal. Hún skal innihalda allt að 30 myndir eða annars konar skrásetningu af verkum umsækjanda. Með þeim skal fylgja greinargóð lýsing þar sem fram koma upplýsingar eins og: titill, stærð, efni, ártal o.s.frv. Video- og hljóðverkum má skila á USB-lykli sé möppunni skilað í pappírsformi, en sem virkir hlekkir/slóð inni í rafrænni möppu. Ekki er tekið á móti verkum í gegnum wetransfer eða sambærilega vefi, heldur skulu þau vistuð á gagnaveitum eins og Google Drive, Vimeo eða Dropbox og passa skal upp á að skjölin séu gerð aðgengileg (public).
  Möppunni má deila í tvo hluta:
  • Undirstöðugreinar – verk sem sýna almenna teiknikunnáttu, myndbyggingu og litanotkun ásamt þrívíddarverkum sem sýna myndbyggingu, formfræði og efnisnotkun.
  • Sjálfstæð verk – myndverk, hljóðverk, texti, o.s.frv., unnin í hvaða efni sem er, sem sýna persónulega sköpun umsækjanda. Hér er átt við verk sem umsækjandi hefur gert út frá eigin forsendum. Verkin þurfa ekki að vera fullgerð eða útfærð til hins ítrasta. Þvert á móti er mikilvægt að þar sé einnig að finna hvers konar hugmyndir, skissur og teikningar, ljósmyndir, texta, myndbönd og hljóðverk. Í raun rúmast allt innan möppunnar sem að mati umsækjanda getur með einum eða öðrum hætti lýst því sem hann vill ná fram með myndlistarvinnu sinni og getur vitnað til um hvort hann hefur hæfileika til að koma því á framfæri við aðra. Í sumum tilvikum getur verið gott að láta stuttan texta um verkin fylgja með.

  Mappan er metin nafnlaus en hún skal vera merkt með umsóknarnúmerinu sem umsækjandi fær þegar hann sækir um á vef skólans. Möppur skulu sóttar aftur á skrifstofu skólans á Laugarnesveg 91 samkvæmt auglýstum fresti. Ósóttar möppur verða ekki geymdar og áskilur skólinn sér rétt til að eyða þeim.

  Ef mappa/portfolio er póstlögð:
  Ef mappan/portfolio er send með pósti þarf póststimpill að vera dagsettur í síðasta lagi 12. apríl 2024.
  Senda skal möppuna/portfolio með rekjanlegum pósti og merkja umslagið með: “Umsókn myndlist”.
  Heimilisfang myndlistardeildar er:
  Listaháskóli Íslands, myndlistardeild
  Laugarnesvegur 91, 105 Reykjavík
  Skrifstofa, aðalinngangur.
 • 2. Kynningarbréf

  Skylda
  Stutt kynningarbréf um umsækjanda og ástæðu umsóknar.
  Forsendur umsóknar, ræðið ástæður þess að sótt er um námið. Segið frá listrænni reynslu, áhuga eða viðfangsefnum sem skipta máli, hámark 200 orð.
 • 3. Inntökuferli

  Í inntökunefnd sitja tveir fastráðnir kennarar deildarinnar, einn utanaðkomandi myndlistarmaður eða listfræðingur auk deildarforseta, sem er formaður. Inntökunefndin velur nemendur úr hópi umsækjenda sem talið er að hafa forsendur til að stunda nám við myndlistardeild og standast þær kröfur sem gerðar eru í listnámi á háskólastigi. Inntökunefndin hefur að leiðarljósi að viðkomandi geti sem best nýtt sér það nám sem í boði er og því skal ekki túlka mat hennar sem einhlítan úrskurð um hæfni umsækjandans til listsköpunar yfirleitt.Inntökuferlið er í eftirfarandi þrepum:
  • Umsóknir eru metnar með tilliti til almennra og sérstakra inntökuskilyrða og inntökunefnd fer yfir innsend verk. Umsækjendur sem standast mat inntökunefndar komast í úrtakshóp.
  • Þeim sem komast í úrtakshóp er boðið í viðtal. Umsækjendur komi með 1-2 verk með sér ásamt skissubók.
  • Öllum umsækjendum verður sent skriflegt svar við umsóknum í maí. Þeir umsækjendur sem fá boð um skólavist þurfa að staðfesta fyrir maílok hvort þeir hyggist taka því með því að greiða staðfestingargjald. Gjaldið er óafturkræft en gengur upp í skólagjöld mæti viðkomandi til náms um haustið.
  • Úrskurður inntökunefndarinnar er endanlegur og henni er ekki skylt að gefa nánari skýringar á úrskurði sínum.
 • 4. Viðtal

  Þeim sem komast í úrtakshóp er boðið í viðtal. Viðtalið hefur þann tilgang að kanna almennan áhuga umsækjenda á tilvonandi námi, afstöðu þeirra og viðhorf til myndlistar og hugmyndir að baki verkum þeirra. Í viðtalið ber umsækjendum að koma með eitt til tvö sýnishorn af verkum sínum ásamt skissubók. Verkin geta verið fullkláruð eða í vinnslu og unnin í hverskonar miðil. Umsækjandi má gera ráð fyrir því að þurfa að tjá sig um þau verk sem hann sendi inn með möppunni sinni. Umsækjendur sem staddir eru erlendis eða geta ekki mætt í viðtal, þurfa að vera reiðubúnir að eiga viðtal við inntökunefnd um fjarfundabúnað.
  Viðtölin munu fara fram 30. apríl, 2. maí og 3. maí 2024.
 • Inntökuskilyrði

  Miðað er við að umsækjendur hafi lokið stúdentsprófi eða sambærilegu námi. Æskilegt er að umsækjendur hafi sótt undirbúningsnám frá hönnunar- eða myndlistardeildum framhaldsskólanna, en slíkt er þó ekki skilyrði.
 • Undanþágur vegna inntöku

  Listaháskólanum er heimilt að veita inngöngu í skólann umsækjendum sem búa yfir þekkingu og reynslu sem telst fullnægjandi undirbúningur til bakkalárnáms við skólann. Þó er við það miðað að umsækjendur hafi lokið eigi færri en 105 einingum úr eldra kerfi framhaldsskólastigsins eða 150 framhaldsskólaeiningum samkvæmt nýja kerfinu.

Á döfinni í myndlistardeild