Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.
Skoða vefinn á ÍslenskuVið Listaháskóla Íslands takast nemendur í vöruhönnun á við samfélagslegar og umhverfislegar áskoranir með skapandi lausnum um leið og þau efla þátttöku hönnuða í samfélagi, listum og vísindum.
Information is provided in Icelandic for study programmes that have Icelandic as the primary language of instruction.
Um námið
Áhersla er lögð á að kynna nemendur fyrir fjölbreyttum aðferðum við hönnunarferli, að efla gagnrýna skapandi hugsun, og að undirbúa nemendur til þess að takast á við áskoranir samtímans með aðferðum hönnunar.
Í náminu þjálfa nemendur aðferðir hönnunarhugsunar. Viðfangsefni eru rannsökuð og þróuð áfram með hönnunarferli, þau sett í samhengi og sett fram sem tillaga í formi frumgerðar, sýningarhluta, myndbanda o.s.frv. Nemendur tileinka sér fjölbreytta tækni og vinnu með tæki og tól (t.d. keramik-, tré-, málmsmíði o.fl.) til að gefa hugmyndum form og móta lausnir. Áhersla er lögð á miðlun verkefna í texta, ljósmyndun og myndbandagerð. Í lok námsins hefur hver nemandi sína eigin vefsíðu til að miðla verkefnum sínum og skapandi sýn.
Meðal verkefna sem nemendur vinna er námskeiðið Staðbundin tækifæri og framleiðsla þar sem nemendur kynnast m.a. vannýttum hráefnum eða tækifærum til aukinnar verðmætasköpunar úr íslensku hráefni. Nemendur gera tilraunir, þróa hugmyndir, læra að hanna og framleiða sjálf og koma að lokum með tillögur að úrbótum og nýjungum í samstarfi við leiðbeinanda og íslensk framleiðslufyrirtæki.
Uppbygging náms
Námið sem er til þriggja ára er 180 einingar og skiptist í fræði, tækni og vinnustofur. Kennsla fer fram í fyrirlestrum, á verkstæðum og á vinnusvæði nemenda þar sem hver hefur sína eigin aðstöðu. Námið er staðbundið, kennt á íslensku en í undantekningatilfellum á ensku, og er nemandinn ábyrgur fyrir eigin námsframvindu. Námið sem er nemendamiðað gefur hverjum og einum svigrúm til að nálgast verkefnin eftir eigin áhugasviði og styrkleikum en hlutverk kennarans er að leiðbeina um hönnunarferlið og verkfæri sem styðja nemandann í eigin þekkingarleit. Áhersla er á samtal nemandans við kennara og samnemendur, þar sem eigin verk og annarra eru túlkuð og sett í samhengi. Námsmat er skrifleg umsögn og miðar við staðið/fallið.
Að loknu námi
Að loknu námi eiga nemendur að vera færir um að vinna á sjálfstæðan og skapandi hátt að ólíkum verkefnum á sviði vöruhönnunar, hjá hönnunarfyrirtækjum eða sjálfstætt. Námið undirbýr nemendur einnig vel fyrir framhaldsnám á meistarastigi.
Til að sækja um bakkalarnám í vöruhönnun er rafræn umsókn fyllt út, umbeðin gögn látin fylgja og í kjölfarið þarf að greiða umsóknargjaldið. Þegar þessum skrefum er lokið og þegar gengið hefur verið úr skugga um að umsækjandi hafi skilað inn öllum nauðsynlegum upplýsingum og fylgiskjölum fær hann staðfestingu í tölvupósti á að rafræn umsókn sé fullgild og móttekin.
6. janúar 2025
8. apríl 2025
Maí / júní 2025
Umsækjendur gera grein fyrir ástæðu umsóknar í viðkomandi námsleið. Kynningarbréfið á að hámarki að vera ein blaðsíða.
Miðað er við að umsækjendur hafi lokið stúdentsprófi eða sambærilegu námi.