Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.
Skoða vefinn á ÍslenskuKatrín María Káradóttir hlaut á dögunum framgang í stöðu prófessors í fatahönnun og er þar með fyrsti prófessorinn í fatahönnun í sögu skólans. Hún hefur átt stóran hlut í mótun háskólanáms í fatahönnun á Íslandi en hún hefur starfað við Listaháskólann síðan 2005.
Katrín lauk námi í kjólaklæðskurði og sveinsprófi í kjólasaum frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1999, diplómu frá Studio Berçot í París árið 2003 og meistaraprófi í listkennslufræðum árið 2023.
Frá 2009 til 2013 var Katrín yfirhönnuður og klæðskeri ELLA by Elínrós Líndal og átti hlut í að móta hugmyndafræði fyrirtækisins sem byggði á „slow fashion“. Hún var aðstoðarhönnuður hjá John Galliano og Dior í París á árunum 2004-2005. Á árunum 2000 til 2005 starfaði hún jafnframt sem klæðskeri hjá Modelor, Bali Barett, LUTZ og Thomas Engel Hart í París. Hún hefur frá árinu 2012 verið sjálfstætt starfandi fatahönnuður, kjólaklæðskeri og ráðgjafi, m.a. fyrir Andreu Maack, Andersen & Lauth, Geysi, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Landspítala-Háskólasjúkrahús.
Katrín hefur tekið þátt í áhugaverðum rannsóknarverkefnum sem eru enn í þróun innan og utan Listaháskólans. Má þar nefna verkefni sem tengist endurnýtingu fatnaðar í samstarfi við Fatasöfnun Rauða Kross Íslands. Í því verkefni hafa nemendur á öðru ári í fatahönnun hannað sína fyrstu fatalínu með efnivið sem þeir safna úr Fatasöfnun Rauða Kross Íslands og halda tískusýningu þar sem flíkurnar eru sýndar. Annað rannsóknar- og þróunarverkefni sem Katrín vinnur nú að er rannsókn á sjávarleðri úr fiskroði sem umhverfisvænum valkosti fyrir tískuiðnað. Verkefnið Fishskin, er unnið með alþjóðlegum samstarfsaðilum þvert á fög bæði frá háskólasamfélagi, University of the Arts í London, Shenkar College of Engineering and Design, Kyoto Seika University, Italian Institute of Technology og starfandi fyrirtækjum í faginu, m.a. Nordic Fish Leather á Sauðárkróki og ArsTintoria og hefur verið styrkt af Horizon 2020 áætlun Evrópusambandsins.
Árið 2013 hlaut Katrín María Indriðaverðlaunin, sem veitt eru annað hvert ár þeim fatahönnuði á Íslandi sem þykir hafa skarað fram úr í hönnun þar sem fagmennska og gæði eru höfð að leiðarljósi. Árið 2023 tilnefndi Félag Háskólakvenna hana til Háskólakona ársins 2022 viðurkenningarinnar og sama ár fékk hún Senior Researcher Award ásamt meðhöfundum sínum vegna Fishskin á IFFTI Kent State University Conference.
Listaháskóli Íslands óskar Katrínu Maríu innilega til hamingju með stöðu prófessors í fatahönnun við hönnunardeild.