Fatahönnun

 
Hagnýtir eiginleikar fatahönnunar, fagurfræði og hugmyndafræði geta haft víðtæk áhrif á umhverfi og samfélag og koma við sögu oft á dag í lífi sérhverrar manneskju.
 
Í fatahönnun er lögð áhersla á að nemendur kunni skil á faglegum forsendum hönnunar og geti út frá þekkingu sinni tekið bæði listræna og ábyrga afstöðu í verkum sínum.
 
Nám í fatahönnun byggir á rannsóknum, rökhugsun, afstöðu, fagurfræði, innsæi og ímyndunarafli.
 
 

Mikil áhersla er lögð á að nemendur tileinki sér fagmennsku og gæði í hönnun, nýti sér tæknimöguleika og það góða handverk sem býðst innan fagsins og öðlist þann grunn sem nauðsynlegur er til að geta orðið leiðandi hönnuðir í framtíðinni.

 

 

Nafn brautar: BA Fatahönnun
Nafn gráðu: BA
Einingar: 180 ECTS
Lengd náms: 6 annir – 3 ár
 

Frá fagstjóra

Þekking og skilningur á gæðum í fatnaði er nauðsynleg undirstaða farsæls starfsferils í fatahönnun og aukin sjálfbærni í greininni er lykilorð þegar litið er til framtíðar.
Markmið brautarinnar er að nemendur þjálfi ábyrga afstöðu til umhverfis, náttúru og samfélaga heimsins á sama tíma og þeir þróa með sér listræna sýn og skapandi nálgun við hönnun á fatnaði. Í náminu kynnast nemendur ólíkum aðferðum við hönnun og rannsóknir og fá þjálfun í miðlun verka sinna ásamt því að verða gagnrýnin rödd í textílheiminum.
 
Þórunn María Jónsdóttir fagstjóri í fatahönnun