Stjórn skólans er skipuð 5 mönnum til þriggja ára í senn. Menntamálaráðherra tilnefnir tvo menn í stjórnina en þrír eru kjörnir á aðalfundi Baklands Listaháskóla Íslands.
 
Stjórnin stendur vörð um hlutverk skólans og gætir þess að starfsemin þjóni settum markmiðum. Hún ber ábyrgð á rekstri, fjárhag, eignum og ákvarðar skólagjöld. Stjórnin ræður jafnframt í stöðu rektors.
 
Rektor annast rekstur og stjórn skólans í umboði stjórnar og ber ábyrgð gagnvart henni. Hann er ábyrgur fyrir að starfstilhögun sé í samræmi við hlutverk, markmið og gæðakröfur, m.a. hvað varðar námsskrá og kennslufyrirkomulag. Rektor ræður helstu yfirmenn skólans í samráði við stjórn.
 
Starfi skólans er skipað í deildir eftir listgreinum og ákvarðar stjórn hans deildaskiptingu. Stjórn skólans setur deildum starfsreglur. Yfirstjórn hverrar deildar er falin deildarforseta og ræður rektor hann í samráði við stjórn.
 
Stjórn skólans:
Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri miðlunar og markaða hjá Símanum, stjórnarformaður. Fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytsins.
Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEFs, varaformaður. Fulltrúi Baklands LHÍ.
Sigrún Lilja Guðbjartsdóttir. Fulltrúi mennta- og   menningarmálaráðuneytsins.
Karen María Jónsdóttir, forstöðumaður Höfuðborgarstofu. Fulltrúi Baklands LHÍ.
Hildur Gunnlaugsdóttir, arkitekt. Fulltrúi Baklands LHÍ.
 
Varamenn:
Jóhann G. Jóhannsson, leikari
 
Starfsreglur stjórnar
Stjórn skólans er skipuð 5 mönnum til þriggja ára í senn og skal enginn þeirra hafa framfæri sitt af starfi við skólann eða stunda nám við skólann. Menntamálaráðherra tilnefnir tvo menn í stjórnina en þrír skulu kjörnir á aðalfundi Baklands Listaháskóla Íslands.
 
Hlutverk og skyldur
Stjórn skólans fer með æðsta ákvörðunarvald innan hans og yfirumsjón málefna er varða skólann í heild. Stjórn skólans skal standa vörð um hlutverk skólans og gæta þess að starfsemin þjóni settum markmiðum. Hún ber ábyrgð á rekstri, fjárhag, eignum og ákvarðar skólagjöld. Stjórn skólans ákvarðar deildaskiptingu. Stjórnin ræður rektor, skv. ákvæðum í skipulagsskrá.
Rektor annast rekstur og stjórn skólans í umboði stjórnar og ber ábyrgð gagnvart henni. Hann er ábyrgur fyrir að starfstilhögun sé í samræmi við hlutverk, markmið og gæðakröfur, m.a. hvað varðar námsskrá og kennslufyrirkomulag. Rektor er ábyrgur fyrir því að stjórnin fái upplýsingar um starfsemi skólans, svo sem fjármál, uppbyggingu og rekstur.
Rektor ræður helstu yfirmenn skólans í samráði við stjórn. Stjórn skólans setur reglur fyrir skólann í samræmi við lög nr. 136/1997. Stjórn skólans setur almennar reglur um veitingu starfa innan hans. Fjárhagsáætlanir og reikninga skal leggja fyrir stjórnina til samþykktar. Stjórnarmönnum ber að þekkja lög, reglur og samþykktir sem gilda um skólann, skilja hlutverk stjórnar og í hverra þágu er unnið. Stjórnarmenn skulu taka sjálfstæðar ákvarðanir í hverju máli fyrir sig. Stjórnarmenn skulu tryggja að til staðar sé innra eftirlit og fylgjast með að ákvörðunum stjórnar sé framfylgt. Í þessu felst m. a. að fjárhagsáætlanir, milliuppgjör og lokauppgjör skulu lögð fyrir stjórn og samþykkt af henni.
 
Starfsreglur
 • Stjórnin skiptir með sér verkum.
 • Formaður stjórnar stýrir fundum og varaformaður í forföllum formanns. Formaður undirbýr stjórnarfundi með rektor.
 • Formaður og aðrir stjórnarmenn vinna að málefnum skólans á milli funda eftir því sem tilefni er til á hverjum tíma.
 • Stjórn getur skipað undirnefndir innan stjórnarinnar til að vinna að afmörkuðum verkefnum.
 • Rektor boðar til stjórnarfunda í umboði formanns og í samráði við hann.
 • Fundir skulu að jafnaði haldnir eigi sjaldnar en einu sinni í mánuði og oftar ef þurfa þykir. Auk stjórnarmanna situr rektor stjórnarfundi.
 • Heimilt er að kalla til framkvæmdastjóra, deildarforseta og aðra stjórnendur skólans í þeim tilfellum sem málefni sem tengjast starfsviði þeirra eru til umræðu.
 • Ritari leggur fundargerðir fyrir stjórnarfundi til samþykktar. Fundargerðir skulu afhentar rektor til varðveislu.
 • Fundargögn skulu varðveitt með fundargerðum.
 • Stjórnin tekur ákvarðanir um þau málefni sem falla undir starfsvið
 • hennar. Komi til atkvæðagreiðslu ræður meirihluti atkvæða.
 • Fundargerðir skulu ekki birtar nema um það sé tekin sérstök ákvörðun.
 • Stjórnarmenn skulu gæta þagmælsku og trúnaðar um málefni sem rædd eru á stjórnarfundum.
 • Stjórnarmenn skulu gæta að því að farið sé eftir almennum reglum um vanhæfi stjórnarmanna.
 • Skipan stjórnar tekur mið af því að enginn stjórnarmanna má hafa framfæri sitt af starfi við skólann eða stunda nám við skólann.
 • Æskilegt er að meiri hluti stjórnarmanna sé óháður skólanum að öðru leyti.
 • Stjórnin skal sjálf meta hvort stjórnarmaður sé óháður og skýra frá niðurstöðu sinni í ársskýrslu skólans.
 • Stjórnarmenn teljast ekki óháðir ef þeir þiggja umtalsverðar greiðslur frá skólanum eða æðstu stjórnendum hans önnur en stjórnarlaun, t. d.verktakalaun eða laun fyrir ráðgjöf.
 • Stjórnarmenn teljast ekki óháðir ef þeir eru tengdir nánum hagsmuna- eða fjölskylduböndum einhverjum af ráðgjöfum skólans, stjórnarmönnum eða æðstu stjórnendum hans.
 • Stjórn skal í störfum sínum styðjast við skipulagsskrá og skólareglur.
 • Stjórnin ákvarðar stjórnarlaun, stjórnarlaun skulu taka mið af stjórnarlaunum í sambærilegum stofnunum.
 • Upplýsingar um stjórnarmenn skulu liggja fyrir í opinberum gögnum um skólann, s. s. á heimasíðu.
 
Æskilegt er að stjórn meti með reglubundnum hætti störf sín, verklag og starfshætti svo og framgang skólans.
Samþykkt á fundi stjórnar Listaháskóla Íslands 18. maí 2004