Leikaranám

Markmið námsleiðarinnar er að útskrifa víðsýna og skapandi listamenn, sem búa yfir þeirri tækni og þekkingu, sem sviðslistaumhverfi nútímans kallar á. Lögð er áhersla á að vekja með nemandanum forvitni og áræðni, til að takast á við hin margvíslegu viðfangsefni námsins.
 

Mikið er lagt uppúr því að nemandinn tileinki sér sjálfstæði, sjálfsaga og fagmennsku, hann geti unnið jafnt einn á báti, sem og í hóp, hann ögri sjálfum sér til að hugsa út fyrir ramman en hafi jafnframt fullt vald á þeirri leiktækni, sem lögð er til grundvallar í náminu.

1 ár 
Sköpunarkrafturinn er grunnur - Samvinna, tenging tækni og sköpunar. 
Meginmarkmið fyrsta árs er að virkja sköpunarkraft nemenda sem frumafl inn í ólíkar leiktúlkunaraðferðir. Nemendur kynnast  grunnaðferðum í spuna, virkja líkamsvitund og ímyndunarafl og kynnast leiktúlkunaraðferðum sem byggjast á greiningu. Áhersla er lögð á að nemendur öðlist verklegan og fræðilegan skilning og þekkingu og átti sig á að þessa þætti þarf að samtvinna í vinnu leikarans.  Nemendur fá  góða undirstöðu í tæknigreinum. Kennd er raddbeiting, hreyfing, söngur og leiktúlkun, auk sviðslistasögu. Í lok árs draga nemendur saman lærdóm vetrarins  í samsköpunarverkefni.  Þar gefst nemendum tækifæri til að styrkja hlutverk leikarans sem sögumanns. 
 
2 ár
Að mæta sköpun annarra – Dýpkun og þjálfun  
Meginmarkmið annars árs er að dýpka verklegan og fræðilegan skilning á ólíkum leiktúlkunar aðferðum  með það að leiðarljósi að stækka verkfærakistu nemenda.  Unnið er markvisst með persónusköpun og nemendur kynnast undirstöðuatriðum kvikmyndaleiks.  Nemendur fá þjálfun í að leika frammi fyrir áhorfendum. Haldið er áfram að dýpka tæknikunnáttu nemenda í söng, rödd og hreyfingu, nú með aukinni tengingu inn í leiktúlkun.  Fræðakennsla tengist að mestu leiktúlkunarnámskeiðum hverju sinni. 
 
3 ár 
Erindið við áhorfandann - Sjálfstæður leikari - Sjálfstæður listamaður 
Meginmarkmið þriðja árs er erindi leikarans við áhorfandann, við samfélagið.  Nemendur vinna þrjú stór leiktúlkunarverkefni sem dýpka ólíkar aðferðir í vinnu leikarans og eru öll verkefnin sýnd opinberlega. Útskriftarverkefni nemenda er  uppsetning á leikverki undir leikstjórn atvinnuleikstjóra. Nemendur mæta verkefninu, leikstjóra og öðrum listrænum stjórnendum á faglegum forsendum sem sjálfstæðir listamenn og nýta þá margvíslegu þekkingu sem þeir hafa aflað sér í náminu.  
 

Sviðslistadeild Listaháskóla Íslands á Vimeo.

Nafn námsleiðar: Leikaranám
Nafn gráðu: BA
Einingar: 180 ECTS
Lengd náms: 6 annir – 3 ár
 

MIKILVÆGAR UPPLÝSINGAR

Opnað fyrir umsóknir: 16. október 2023

Lokar fyrir umsóknir: 30. nóvember 2023

Haustönn byrjar: Ágúst 2024

UMSÓKN

Rafræn umsókn

HAFA SAMBAND

Marinella Arnórsdóttir, deildarfulltrúi sviðslistadeildar, marinella [at] lhi.is

Halldóra Geirharðsdóttir, prófessor

Listamaðurinn útskrifast aldrei. Hann er alltaf á leiðinni.
 
Sviðslistir og list leikarans eru listir augnabliksins. Leikari verður að vera frjáls hvert augnablik í listsköpun sinni. Okkar markmið er að nemendur hvíli í sjálfum sér og upplifi sig sem farveg fyrir þá sögu sem sögð er, það listaverk sem fæðist.  
 
Nám í leiklist miðar að því að afhenda nemendum verkfæri sem auðvelda aðgengi að eigin sköpunarkrafti sem hægt er að miðla til áhorfenda. 
 
Með því að spegla sig í ljósi sögunnar, horfa til framtíðar og meta líðandi stund frá mörgum sjónarhornum hefur leikari mikilvægu hlutverki að gegna í samfélaginu.