Leikarabraut

Markmið leikarabrautar er að útskrifa víðsýna og skapandi listamenn, sem búa yfir þeirri tækni og þekkingu, sem sviðslistaumhverfi nútímans kallar á. Lögð er áhersla á að vekja með nemandanum forvitni og áræðni, til að takast á við hin margvíslegu viðfangsefni námsins.
 

Mikið er lagt uppúr því að nemandinn tileinki sér sjálfstæði, sjálfsaga og fagmennsku, hann geti unnið jafnt einn á báti, sem og í hóp, hann ögri sjálfum sér til að hugsa út fyrir ramman en hafi jafnframt fullt vald á þeirri leiktækni, sem lögð er til grundvallar í náminu.

Á fyrsta ári leikarabrautar fær nemandinn góða undirstöðu í tæknigreinum. Kennd er raddbeiting, hreyfing og leiktúlkun, auk sviðslistasögu og söngs, þar sem stuðst er við svokallaða Complete Vocal Technique. Kenningar sem stuðst er við í leiktúlkun taka í megin dráttum mið af fræðum Konstantíns Stanislavski og arfleið hans, þótt önnur aðferðafræði komi einnig við sögu. Sameiginleg námskeið allra brauta deildarinnar eru mikilvægur þáttur námsins á þessu tímabili. 
 
Á öðru ári er haldið áfram að dýpka tæknikunnáttu nemandans á öllum sviðum. Fræðakennsla tekur að mestu mið af leiktúlkunarnámskeiðum hverju sinni. Meðfram tímum í söng, rödd og hreyfingu, er áherslan í leiktúlkun á senuvinnu úr verkum Forn Grikkja og Shakespeare. Nemendur fá einnig þjálfun í aðferðum leikhúss líkamans (Physical Theatre) og vinna auk þess sjálfstætt að stuttu einstaklingsverkefni. Á öðru ári fær nemandinn einnig kennslu í kvikmyndaleik og þeim vinnuaðferðum sem sá miðill kallar á. 
 
Þriðja árið er ár úrvinnslu. Lögð er áhersla á að efla skilning nemandans á ólíkum aðferðum leikhússins. Nemandinn nýtur enn kennslu í fræðum og tæknigreinum s.s rödd, hreyfingu og söng, en stefnumótið við áhorfandann fær nú síaukið vægi. Stórum námskeiðum, þar sem tekist er á við leikverk frá 20.öld, samsettar aðferðir,(devised) og umfangsmikið einstaklingsverkefni, lýkur öllum með sýningum fyrir áhorfendur. Nemendur ljúka söngnáminu með sviðsettum tónleikum og vinna einnig að útvarpsverkefni. Lokaárinu lýkur svo með fullbúinni leiksýningu, sem er hið formlega útskriftarverkefni.

 

Leikarabraut from Listaháskóli Íslands - IUA on Vimeo.

Nafn brautar: Leikarabraut
Nafn gráðu: BA
Einingar: 180 ECTS
Lengd náms: 6 annir – 3 ár
 

INNTÖKUR 

ATH! Ekki er tekið við umsóknum fyrir skólaárið 2020

 

CONTACT

Dagmar Atladóttir, deildarfulltrúi dagmar [at] lhi.is

Fagstjóri

Listamaðurinn útskrifast aldrei. Hann er alltaf á leiðinni.
 
Sviðslistir og list leikarans eru listir augnabliksins. Leikari verður að vera frjáls hvert augnablik í listsköpun sinni. Okkar markmið er að nemendur hvíli í sjálfum sér og upplifi sig sem farveg fyrir þá sögu sem sögð er, það listaverk sem fæðist.  
 
Nám í leiklist miðar að því að afhenda nemendum verkfæri sem auðvelda aðgengi að eigin sköpunarkrafti sem hægt er að miðla til áhorfenda. 
 
Með því að spegla sig í ljósi sögunnar, horfa til framtíðar og meta líðandi stund frá mörgum sjónarhornum hefur leikari mikilvægu hlutverki að gegna í samfélaginu.

 

Halldóra Geirharðsdóttir