Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarf (NAIP)

Starf tónlistarmannsins breytist hratt, verður sífellt fjölbreytilegra og teygist víðar þvert á landamæri. Lengi hefur skort á að í boði sé einstaklingsmiðað tónlistarnám sem sniðið er að þörfum hvers og eins. Störfum fyrir tónlistarmenn í hljómsveit eða óperuhúsi fer hlutfallslega fækkandi, að ekki sé minnst á að fá tækifæri sem einleikari eða einsöngvari, á meðan störfum frumkvöðla og sjálfstætt starfandi tónlistarmanna með fjölbreyttan bakgrunn á hinum ýmsu sviðum þjóðfélagsins fjölgar hratt.

Evrópskt meistaranám í Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi (New Audiences and Innovative Practice - NAIP) er tveggja ára nám til 120 eininga og er sett á fót til að mæta auknum kröfum samfélagsins um hæfni tónlistarmanna til að starfa við fjölbreytilegar og þverfaglegar aðstæður. Námið er einnig vettvangur fyrir nýjar aðferðir í tónlistariðkun, sköpun og miðlun þar sem hver nemandi getur þróað og unnið með sína hugmynd, starfsemi, aðferð og/eða rannsókn. Námið fer fram í samvinnu við fleiri listaháskóla í Evrópu (sjá http://musicmaster.eu/).

Námið hentar tónlistarmönnum með fjölbreytilegan bakgrunn, bæði sem flytjendur og tónsmiðir, sem hafa skýra sýn, hæfni og köllun til að feta nýjar námsleiðir í að vinna með tónlist og tónlistariðkun í þágu samfélagsins. Þeir fá þjálfun í listrænni stjórnun, verkefnastjórnun, frumkvöðlastarfi og starfendatengdum rannsóknum. Unnið er að samstarfsverkefnum milli ólíkra tónlistarstíla, listgreina og hvers konar hópa samfélagsins með það að markmiði að nálgast nýja áheyrendur, efla áræði og dug til að gerast leiðtogar á sínu sviði og þróa sífellt nýjan vettvang fyrir listsköpun í fjölbreyttu samhengi.

Fagstjórar Sköpunar, miðlunar og frumkvöðlastarfs (NAIP) eru sigurdurh [at] lhi.is (Sigurður Halldórsson) og berglindmaria [at] lhi.is (Berglind María Tómasdóttir.)

 

Nafn námsleiðar: Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarf
Nafn gráðu: M.MUS
Einingar: 120 ECTS
Lengd náms: 4 annir – 2 ár
Kennslutungumál: Enska
 

IMPORTANT INFORMATION

Opening of applications: January 8th 2024

Deadline: April 12th 2024

Application outcome: May 2024

APPLICATION

Electronic Application

CONTACT

sigurdurh [at] lhi.is (Sigurður Halldórsson)
berglindmaria [at] lhi.is (Berglind María Tómasdóttir)

SHORT CUTS

Music Department on Instagram

IUA Rules

Tuition 

Course Catalog

 „Ég sótti um í meistarnámið NAIP af því að mig langaði að freista þess að starfa alfarið við tónlist.  Strax í upphafi námsins fann ég hvað það var valdeflandi og allir kennarar hvetjandi og leiðandi á þann hátt að ég gat unnið sjálfstætt að því að finna minn veg við tónlistarsköpun. Í náminu sjálfu fékk ég líka tækifæri til að starfa með tónlistarfólki erlendis sem var í sama námi. Það var ómetanlegt. Námið var virkilega lærdómsríkt og undirbjó mig afar vel fyrir að starfa við fjölbreytilegar aðstæður í tónlistinni. Stærsti hluti atvinnu minnar í dag kemur til vegna verkefna sem ég stofnaði til undir handleiðslu frábærra kennara í LHÍ. Þetta er nám sem heldur áram að gefa! Takk fyrir mig.“ 

Lilja Dögg Gunnarsdóttir

Frá fagstjóra

Kjarninn í aðferðafræði NAIP-meistaranámsins er samvinna. Þó er það einstaklingsmiðað og nemendamiðað, þannig að hver nemandi móti sinn vettvang í nánum tengslum við samfélagið. Námið undirbýr tónlistarmenn fyrir örar breytingar í starfsumhverfi þeirra, sem í síauknum mæli krefst leiðtoga- og samskiptahæfni og skapandi hugsunar. Áhersla er lögð á að leggja grunn að jákvæðu námsumhverfi sem byggir á trausti og samkennd þar sem þekkingu og reynslu er miðlað á jafningjagrundvelli. Námið er fjölþjóðlegt og er í samvinnu við aðra listaháskóla í Evrópu. Því er ætlað að leiða saman ólíka strauma og stefnur, efla samvinnu milli ólíkra geira tónlistar og mismunandi list- eða starfsgreina. Námið getur verið valkostur til endurmenntunar fyrir tónlistarmenn úr öllum tónlistargeirum sem hafa þegar haslað sér völl.

Öll okkar tækifæri til að blómstra sem listamenn og manneskjur byggjast á samvinnu og samskiptum. NAIP er námsumshverfi sem byggir upp traust þar sem einstaklingarnir í hópnum eru óhræddir við að deila hugmyndum sínum og hugsunum með öðrum, gera tilraunir og fá til baka stuðning, viðbrögð og nýjar hugmyndir. Hvort sem viðfangsefni nemandans er tilraunatónlist, gjörningar, ópera eða barokktónlist þá er jarðvegur sem gerir þátttakendunum kleift að ögra sjálfum sér með stuðningi hópsins, taka áhættu og gera öll þau mistök sem nauðsynlegt er til að ná árangri. Námið byggir upp sjálfsöryggi og sjálfstæði, færni í tónsköpun, samspili og samsöng.

Sigurður Halldórsson