Klassísk söng-/hljóðfærakennsla
Klassísk söng-/hljóðfærakennsla er þriggja ára nám sem leiðir til B.Mus.Ed gráðu við námslok. Uppbygging námsins svipar mjög til B.Mus náms í hljóðfæraleik.

Áhersla er lögð á fjölþætta þjálfun í hljóðfæraleik en auk þess er áhersla lögð á kennslufræðitengdar greinar og önnur fræði. Markmiðið er að við lok námsins búi nemendur yfir góðri færni á hljóðfæri sitt auk hagnýtrar þekkingar sem nýtist þeim við kennslu barna og unglinga í fjölbreyttu samfélagi. Meðal sértækra námsgreina má nefna kennslufræði, sálfræði, miðlun og þætti tengda samspili og spuna og margt fleira.
Reglubundnir hóptímar og masterklassar eru vettvangur þar sem nemendum er leiðbeint af öðrum en aðalfagkennurum sínum. Margir íslenskir og erlendir gestakennarar heimsækja deildina á hverju ári. Kammertónlist og samspil eru mikilvægur þáttur í náminu ásamt námskeiðum í barokktónlist og samtímatónlist.
Markmið tónlistardeildar er að mennta fjölhæft tónlistarfólk með góða þekkingu, leikni og hæfni í sínu fagi. Kennaranámið telst ákjósanlegur undirbúningur meistaranáms í hljóðfærakennslu. Vel menntaðir tónlistarkennarar eru undirstaða áframhaldandi vaxtar tónlistarnáms í samfélaginu til framtíðar litið.
Frekari upplýsingar um námið er að finna í stuttri kynningu hér að neðan.
Flestir tónlistarmenn sinna kennslustörfum einhvern tímann á lífsleiðinni og er námið því góður valkostur fyrir ungt tónlistarfólk sem vill eiga fjölbreytta starfsmöguleika á sviði tónlistar.
Fagstjóri klassískrar söng- og hljóðfærakennslu er elinanna [at] lhi.is (Elín Anna Ísaksdóttir), aðjúnkt.