Rannsóknarsvið rannsóknarstofu í listkennslufræðum: Listir og sjálfbærni; Listir og samfélag; Heimspeki, siðfræði og listmenntun.

Markmið Rannsóknarstofu í listkennslufræðum er að auka og efla rannsóknir og þróunarverkefni á sviði listnáms og listkennslu á öllum skólastigum í náinni samvinnu við vettvang. Markmiðið er einnig að hvetja til frumkvæðis að rannsóknum og að skapa aðstæður til að miðla þekkingu og kynna niðurstöður rannsókna á sviðinu m.a. með ráðstefnum og málþingum, útgáfu fræðigreina og fræðirita og með fyrirlestrahaldi.

Hlutverk rannsóknarstofunnar er að vera vettvangur samtals listgreinakennara, listamanna og allra sem sinna rannsóknum á sviði listnáms, -kennslu og listmiðlunar. Hún tekur til allra listgreina og lögð verður áhersla á þverfaglegar nálganir og tengsl við alþjóðlegar rannsóknastofur.

Stefnt er að sem víðtækustu samstarfi við þá aðila sem vinna að rannsóknum og þróun á náms- og kennsluháttum lista og skapandi skólastarfi með áherslum á samtíma málefni, sem spanna mismunandi starfshætti og orðræðu (listir, menntun, kennslufræði, pólitík, menningarfræði, stafræna miðlun, heimspeki, safnafræðslu og samfélagstengdar listir). Samstarf og samtal milli listgreina og annarra fræðigreina felur í sér óþrjótandi möguleika á rannsóknar- og þróunarverkefnum.

Mikilvægt er að rækta náið samstarf við grasrótina, fagfélög listamanna og menningar- og listastarfsemi í landinu með það fyrir augum að efla ennfrekar  nýsköpun og styðja við vaxtarsprota listkennslu á sem breiðustum grunni.

Rannsóknarstofan starfar undir hatti listkennsludeildar Listaháskóla Íslands og hefur aðsetur þar.

Stjórn Rannsóknarstofu í listkennslufræðum

Kristín Valsdóttir, deildarforsteti Listkennsludeildar. Formaður stjórnar. 
Guðný María Jónsdóttir, leikstjóri og leiklistarkennari í Borgarholtssskóla. 
Ingimar Ólafsson Waage, heimspekikennari í Garðaskóla og doktorsnemi við HÍ. 
Hanna Ólafsdóttir, lektor í myndlistarkennslu við Menntavísindasvið HÍ. 
Klara Þórhallsdóttir, verkefnastjóri fræðslu Listasafns Reykjavíkur.
Þórdís Sævarsdóttir, formaður Tónmenntakennarafélags Íslands