Listaháskólinn starfar á alþjóðlegum grundvelli með víðtæku samstarfi og þátttöku í fjölþjóðlegum verkefnum. 
 
Fjölmargir nemendur Listaháskólans taka hluta náms síns erlendis og fjölbreyttur hópur nemenda frá ýmsum löndum stundar hér nám til lengri eða skemmri tíma. Skólinn býður upp á alþjóðlegt nám á meistarastigi í tónlist, myndlist og hönnun og lögð er áhersla á að búa nemendur undir störf sem listamenn á alþjóðlegum vettvangi. 
 
Markvisst er leitað samstarfs við listamenn og fræðafólk erlendis frá um kennslu við skólann og kennarar skólans afla sér reynslu og nýrra viðmiða með kennslu í samstarfsskólum vítt og breitt um álfuna. 

 

 

Skólinn er virkur þátttakandi í fjölþjóðlegum samtökum sem á einn eða annan hátt láta sig varða samstarf og þróun háskólastofnana í listum.

Stefna skólans er að:
 
Styrkja stöðu sína með virkri þátttöku í alþjóðlegu samstarfi.
 
Byggja upp samstarf við skóla og stofnanir utan Evrópu.
 
Styðja nemendur og starfsfólk skólans til þátttöku í fjölþjóðlegum verkefnum.
 
Styðja nýútskrifaða nemendur til tímabundinna starfa á sínu sérsviði hjá stofnunum og fyrirtækjum í öðrum löndum.
 
Efla eftirfylgni og kerfisbundið mat á fjölþjóðlegum verkefnum.
 
Kynna skólann á alþjóðlegum vettvangi á grundvelli faglegrar stöðu sinnar og fjölbreytileika.
 
Undirbúa stofnun alþjóðlegs sumarháskóla sem byggir á sterkum alþjóðatengslum skólans og samstarfi hans við skóla, stofnanir og sveitarfélög vítt og breitt um landið.

ERASMUS POLICY STATEMENT

Erasmus Policy Statement 2018-2020