Vöruhönnun

Í náminu er lögð áhersla á að kynna fyrir nemendum fjölbreytt tæki og tól sem þau geta nýtt til að móta og miðla hugmyndum sínum á skapandi hátt.
 
Meðal þess sem nemendur á námsbrautinni hafa fengist við á undanförnum árum eru verkefni á sviði matarhönnunar, efnisrannsókna og staðbundinnar framleiðslu.
 
Áhersla er lögð á að nemendur fái þjálfun í að vinna hönnunarverkefni í samstarfi við félög, samtök og ólíkar stofnanir í samfélaginu.
 
Meðal þeirra sem námsbrautin hefur verið í samstarfi við eru Matís, Skógræktarfélag Reykjavíkur og Litla-Hraun.
 
Með því að kynnast ólíkum efnum, tileinka sér nýja tækni, endurskoða ferla og hanna kerfi eða hluti inn í ákveðið samhengi öðlast nemendur færni til að nýta hönnun sem afl til umbóta.
 
Í því samhengi skiptir máli að kanna staðbundnar aðstæður í hnattrænu samhengi og fjalla um þær áskoranir og tækifæri sem felast í því að búa í fámennu landi með víðáttumikilli og stórbrotinni náttúru. 

Námsbraut í vöruhönnun from Listaháskóli Íslands - IUA on Vimeo.

Nafn brautar: Vöruhönnun
Nafn gráðu: BA
Einingar: 180 ECTS
Lengd náms: 6 annir – 3 ár
Fegurðin í náminu felst í því hversu opið það er. Hver einstaklingur getur fundið sínu áhugasviði farveg en í náminu lærir maður að nýta sér ákveðin tæki og tól í verkefnum sínum. Þau verða því jafn ólík og einstaklingarnir eru margir. Námið er mjög persónulegt og það er það sem gerir ferlið svo þroskandi.
 
Að stunda nám í hönnun er eitt mest krefjandi verkefni sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Á sama tíma hefur það styrkt mig sem manneskju, eflt gagnrýna hugsun mína, veitt mér ný tækifæri og umkringt mig fullt af frábæru fólki.

Heiðdís Inga Hilmarsdóttir, vöruhönnuður.

Kristín Soffía Þorsteinsdóttir
Minningargripir: Samband manns og hlutar

Frá fagstjóra

Í tengslum við áherslubreytingu hönnuða frá því "hvernig" eitthvað verður til yfir í "af hverju" hlutur verður til, er ávallt mikilvægt fyrir hönnuði að geta kynnt verk sín vel bæði í máli og myndum og geta rökstutt skoðanir sínar á opinberum vettvangi sem gild gagnrýnin rödd á þau kerfi sem tengjast faginu. Nemendur fá þjálfun í að miðla verkum í mismunandi miðlum, meðal annars í texta, teikningum, smíði frumgerða, ljósmyndun og kvikmyndun.

Rúna Thors, aðjúnkt og fagstjóri í hönnun.