Grafísk hönnun

Helsta leiðarljós grafískrar hönnunar er að miðla. Grafískir hönnuðir miðla upplýsingum, texta, myndum og hverskyns innihaldi með það að markmiði að hámarka skilning. Við Listaháskóla Íslands hefur kennsla grafískrar hönnunar miðað að því að efla fagið ásamt því að hvetja nemendur til þess að láta sig umhverfið og samfélagið varða – og horfa til framtíðar. Nemendur sækja þá í hverskyns sögulegan arf. Þeir kynnast fjölbreyttum miðlunarleiðum og þeim ráðlagt að vera meðvitaðir um það samhengi sem þeir starfa innan. Nemendur eiga þá einnig að temja sér skapandi hugsun og skilning á viðfangsefni sínu frekar en að festa sig í tæknilegum takmörkunum eða hefðum.

Grafísk hönnun byggir á fornum grunni skriftar, leturs, myndlýsinga og prentunar en á 20. öldinni hafa þessir þættir þróast yfir í fjölbreytt samspil skapandi og skipulagðra nálgana við miðlun skilaboða. Akademísk vinnubrögð eru í hávegum höfð í allri vinnu innan skólans, hvort sem er á meðal starfsfólks eða nemenda, til þess að stuðla að faglegum vinnubrögðum og skýrari miðlun á efni, hugmyndum og hugrenningum.

Stefnt er að því að nemendur geti lagað sig auðveldlega að breytingum. Og að þeir geti komið á breytingum. Að þeir geti leyst flókin vandamál og stýrt stórum og smáum verkefnum hvort sem þeir eru að miðla eigin hugmyndum og rannsóknum eða miðla hugmyndum annarra. Það er mikilvægt að nemendur, og allir grafískir hönnuðir, þrói með sér næmt auga þegar kemur að því að meðtaka upplýsingar og form, að þeir geti unnið sjálfstætt, saman eða með öðrum utan fagsins og að þeir deili sinni sérþekkingu og geti boðið sértæka sýn á hvers kyns vandamál og verkefni.

Grafískri hönnun má lýsa sem fagi sem hefur áhrif á samfélagið og er í stöðugri þróun líkt og umhverfið sem það lifir og hrærist í. Þær breytingar og þróun sem eiga sér stað eru settar í samhengi við námið til þess að auka meðvitund nemenda sem hönnuða og þátttakenda í síbreytilegu samfélagi.

Nafn brautar: Grafísk hönnun
Nafn gráðu: BA
Einingar: 180 ECTS
Lengd náms: 6 annir – 3 ár

Frá fagstjóra

Grafísk hönnun er í senn áþreifanleg og ósýnileg. Hún er samfélags- og tæknibreytingum háð en býr engu að síður yfir mjög breiðu sviði tækifæra sem bjóða jafnframt upp á óteljandi möguleika. Ein besta leiðin fyrir fagið til að dafna og blómstra er stöðugt endurmat og endurskilgreiningar. Við erum opin og berskjölduð gagnvart því að í hverju samhengi fyrir sig þarf að meta nýjar breytur og aðstæður. Við viljum vera ábyrgir gagnrýnendur og upplýsendur sem við byggjum á stoðum sögulegrar þekkingar og horfum til þess að leggja okkar af mörkum sem þáttakendur í samtalinu um jákvæða þróun samfélags.

Birna Geirfinnsdóttir, lektor og fagstjóri í grafískri hönnun.