Höfuðáhersla tónlistardeildar er að innsæi og forvitni er drifkraftur sköpunar. Deildin hefur sérstöðu í framsæknu námi sem byggir á arfleifð, sögu, þekkingu og tækni. Markmið deildarinnar er að stuðla að þroska og efla nemendur til sjálfstæðis með sterka vitund fyrir nýsköpun, samfélagi og samstarfi.

Hlutverk tónlistardeildar er að mennta tónlistarmenn og undirbúa þá fyrir störf í tónlist á breiðum grundvelli. Markmiðið er að þeir tileinki sér sjálfstæð vinnubrögð, auki við þekkingu sína og færni og rækti sjálfa sig sem sjálfstæða listamenn. Námið skal standast alþjóðlegar kröfur og taka mið af fjölbreyttum verkefnum tónlistarmanna í tónlistarflutningi, nýsköpun og við kennslu. Útskrifaðir nemendur tónlistardeildar eiga að vera afl sem auðgar samfélagið.

Námsleiðir tónlistardeildar á bakkalárstigi eru sjö:

Á meistarastigi eru þrjár námsleiðir:

DIPLÓMANÁM Í HLJÓÐFÆRALEIK/SÖNG

Námið er ætlað hæfileikaríkum nemendum sem enn stunda almennt nám í framhaldsskóla, en stunda hljóðfæranám á framhaldsstigi samkvæmt aðalnámsskrá tónlistarskólanna eða sambærilegu námi. Umsækjendur eru boðaðir í stöðupróf í tónfræði, hljómfræði og tónheyrn auk áheyrnaprufu.

NÁM TIL BA / BMUS GRÁÐU

Boðið er upp á þriggja ára grunnnám, 180 einingar, til BMus og BA gráðu. Annars vegar er lögð megináhersla á hljóðfæraleik og söng og hins vegar á sérhæft tónlistarnám í skapandi tónlistarmiðlun, söng- og hljóðfærakennaranámi (rytmísku og klassísku), kirkjutónlist og tónsmíðum með áherslu á nútímatónsmíðar, kvikmyndatónlist, leikhústónlist, upptökustjórn eða nýmiðlun.

Inntökuskilyrði í nám til BA eða BMus gráðu

Inntökuskilyrðin greinast í almenn og sérstök inntökuskilyrði.

a) Almenn inntökuskilyrði

Miðað er við að umsækjendur hafi lokið stúdentsprófi eða sambærilegu námi. Þeir sem ekki uppfylla þessi almennu inntökuskilyrði þurfa að sýna fram á þroska og þekkingu sem meta má til jafns við það nám sem á vantar. Í öllum tilfellum þurfa umsækjendur að hafa lokið hið minnsta 105 einingum á framhaldsskólastigi til stúdentsprófs. Greinargerð þar að lútandi skal fylgja umsókn.

b) Sérstök inntökuskilyrði

Auk hinna almennu inntökuskilyrða þurfa umsækjendur að uppfylla viðbótarkröfur um þekkingu á tónlist. Þar er miðað við að umsækjandi hafi lokið framhaldsstigi samkvæmt aðalnámsskrá tónlistarskólanna eða sambærilegu námi.

Allir sem uppfylla almenn inntökuskilyrði eru boðaðir í stöðupróf í tónfræði, hljómfræði og tónheyrn. Auk þess eru umsækjendur um nám í hljóðfæraleik/söng, skapandi tónlistarmiðlun og kirkjutónlist boðaðir í áheyrnaprufu og umsækjendur um nám í tónsmíðum eru boðaðir í viðtal.

NÁM TIL MA / M.MUS GRÁÐU

Á meistarastigi er boðið upp á tveggja ára, 120 eininga nám til meistaragráðu. Um er að ræða nám til MA eða M.Mus gráðu í tónsmíðum, nám til M.Mus.Ed. gráðu í klassískri söng- og hljóðfærakennslu og nám til M.Mus gráðu í sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi (NAIP) en þar er um að ræða samevrópskt meistaranám sem er samstarfsverkefni fimm tónlistarháskóla í Evrópu.

Inntökuskilyrði fyrir meistaranám í  söng- og hljóðfærakennslu

BA / BMus próf í hljóðfærakennslu, hljóðfæraleik eða söng eða sambærilegt nám. Við mat á hæfi umsækjenda er einnig er tekið tillit til langrar kennslureynslu.

Inntökuskilyrði fyrir meistaranám í tónsmíðum

BA / BMus próf í tónsmíðum eða sambærilegt nám sem metið verður af inntökunefnd. Ítarleg námstillaga skal fylgja þar sem fram koma markmið og rannsóknarsvið náms.

Inntökuskilyrði fyrir meistaranám í sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi

BA / BMus gráða í tónlist eða sambærilegt nám og reynsla. Gott vald á tónlistarflutningi sem skal sýnt í inntökuprófi. Skýr, listræn sýn og metnaður auk nægrar grunnþekkingar í þeim hæfniviðmiðum sem sett eru og metin í inntökuferlinu.