Arkitektúr

Arkitektúr er faggrein sem snertir á ýmsum þáttum samfélagsins. Arkitektar eiga í virku samtali við sérfræðinga í öðrum faggreinum og þetta samtal hefur áhrif á hönnunarferli og lokaniðurstöðu.
Nám í arkitektúr byggir á lifandi samtali nemenda og kennara. Með því að eiga í lifandi samræðum við umhverfi okkar, veruleika, menningu, landslag, samferðafólk og sérfæðinga úr öðrum greinum, þróum við frásagnaraðferðir í arkitektúr sem síðan er miðlað í verkefnum nemenda með teikningum, módelum, textum, sýningum og vídeóverkum.
 
Arkitektúr fjallar um það hvernig allir jarðarbúar getið búið saman á jörðinni – og það er bæði flókið og marglaga viðfangsefni.
 
 
Á þeim þremur námsárum sem leiða til BA-gráðu í arkitektúr þróa nemendur fjölbreytt verkefni með ólíkum áherslum; sum þeirra eru fyrst og fremst hugmyndafræðilegs eðlis á meðan önnur taka á sig raunverulega og áþreifanlega mynd og tala beint inn í byggt umhverfi, bæði í Reykjavík sem og á landsbyggðinni, í staðbundnu samhengi á Íslandi eða í hnattrænu samhengi. Hvert og eitt verkefni getur aukið skilning okkar á samélagslegum þáttum arkitektúrs og aukið vitund okkar um mikilvæg málefni sem varða almannahagsmuni, þekkingu og gildismat og gert okkur fært að sjá fyrir okkur sameiginlega framtíð. Íslenskur veruleiki er vettvangur rannsókna og verkefna okkar en í þeim endurspeglast hnattrænt samhengi enda er heimurinn allur viðfangsefni arkitekta og það sem framkvæmt er á einum stað getur haft áhrif víða.
 

Námsbraut í arkitektúr from Listaháskóli Íslands - IUA on Vimeo.

Nafn brautar: Arkitektúr
Nafn gráðu: BA
Einingar: 180 ECTS
Lengd náms: 6 annir – 3 ár
 
 

Frá fagstjóra

Hildigunnur lauk Cand.Arch.-gráðu frá Kunstakademiets Arkitektskole í Kaupmannahöfn og hefur starfað sem hönnuður á arkitektastofum auk þess að starfa sjálfstætt sem fræðimaður, ráðgjafi og listrænn stjórnandi á fagsviði arkitektúrs og manngerðs umhverfis. Hún er virkur rannsakandi en eftir hana hafa birst fjölda greina og bókakafla á fagvettvangi arkitektúrs og á breiðari vettvangi lista auk þess sem hún hefur umtalsverða reynslu af þverfaglegu samstarfi í fjölbreytilegum verkefnum.

Hildigunnur Sverrisdóttir deildarforseti arkitektúrdeildar