Arkitektúr

Arkitektúr fjallar um hvernig við upplifum rými og hvernig rými mótar bæði samskipti, upplifun hegðun og líðan fólks.
 
Á námsbraut í arkitektúr er fjallað um arkitektúr og manngert umhverfi í víðu samhengi.
 
Nemendur vinna verkefni á sviði borgarskipulags og borgarfræða en rannsaka einnig hvernig náttúran mótar arkitektúr og hvernig arkitektúr hefur áhrif á náttúru og umhverfi.
 
Nemendur tileinka sér aðferðafræði og tækni sem gerir þeim kleift að hanna byggingar og manngert umhverfi í ólíku samhengi. Sérstök áhersla er lögð á að skoða byggingar í ljósi staðaranda og upplifunar og greina það fjölbreytta samhengi sem hver og ein bygging er hluti af. Þannig öðlast nemendur víðtækan skilning á því hvað felst í arkitektónísku inngripi auk þess að tileinka sér ólíka aðferðafræði og færni sem nýtist þeim bæði í framhaldsnámi í arkitektúr og öðrum fjölbreyttum verkefnum sem snerta á manngerðu umhverfi.  
 
Að loknu þriggja ára námi útskrifast nemendur með BA-gráðu í arkitektúr sem gerir þeim kleift að sækja um framhaldsnám í faginu og öðlast að því loknu full starfsréttindi sem arkitekar.
 
BA nám í arkitektúr nýtist einnig í ýmsum ólíkum verkefnum og störfum sem tengjast umhverfi og samfélagi.

Námsbraut í arkitektúr from Listaháskóli Íslands - IUA on Vimeo.

Nafn brautar: Arkitektúr
Nafn gráðu: BA
Einingar: 180 ECTS
Lengd náms: 6 annir – 3 ár
 
 

Frá fagstjóra

Arkitektúr var í upphafi skilgreindur sem listin að reisa hús og fegra eftir ákveðnum reglum þar sem grunnstoðirnar eru fagurfræði, tæknileg geta og notagildi (venustas, firmitas, utilitas). Í seinni tíð hefur inntak fagsins orðið mun víðtækara og er allt hið manngerða umhverfi til umfjöllunar í arkitektúr þar sem mótun hins einstaka arkitektóníska verks mótar hið sameiginlega; almenningsrýmið. Samhliða því sem viðfangsefni arkitektúrs hafa orðið fjölbreyttari hefur hin samfélagslega ábyrgð og meðvitund aukist og þó svo að inntak fagsins í dag sé mun víðtækara en áður eru grunnstoðir þess enn í fullu gildi. Þannig erum við stöðugt að skoða umhverfi okkar og samfélag og draga fram blæbrigði þess með arkitektónískum verkfærum.

Massimo Santanicchia, dósent og fagstjóri í arkitektúr.