Arkitektúr

Námið við LHÍ spannar fyrsta hluta hefðbundins náms til starfsréttinda arkitekta með BA-gráðu í arkitektúr. Listaháskólinn leitast við að búa nemendur sína vel til áframhaldandi náms og að lokum til farsæls starfs í mótunarferli samfélagsins og umhverfi þess. Mikil áhersla er lögð á fagleg gæði kennslunnar, að nemendur fái traustan grunn með fjölbreyttum verkefnum í þeim fjölbreytilega skala sem arkitektúr teygir sig yfir.

Arkitektúrkennsla við skólann fer að stærstum hluta fram í vinnustofu, þar sem námskeiðin eru í samhangandi en tvíþættum ryþma; hefðbundin hönnunarverkefni, sem taka allt upp í heila önn, eru brotin upp með styttri og fjörmeiri eða dýpri verklegri vinnustofum og rannsóknarnámskeiðum. Allt hangir ferlið saman og hvert skref leiðir gjarnan af öðru.

Þroskaferli nemenda er ávallt í forgrunni og samfara því að veita sem styrkastan almennan grunn til framhaldsnáms, leitast kennarar skólans við að nýta það stórbrotna tækifæri sem svo lítill skóli hefur á nánd við samfélag sitt. Því tengjast verkefnin gjarnan stærra samhengi áleitinna spurninga úr samtímanum og í rannsóknum innan skólans, oft og tíðum í beinu samtali við aðrar deildir, háskólastofnanir eða stofnanir á borð við Reykjavíkurborg. 

Auk fastráðinna akademískra starfsmanna, sækir skólinn í gríðarlega öflugan hóp nokkurra tuga arkitekta, listamanna og annarra sérfræðinga sem virkir eru í atvinnulífinu en veita með tengingum við viðfangsefni stéttarinnar á líðandi stundu og sérþekkingu sinni gríðarlega mikilvægan straum og endurnýjun faglegrar þekkingar. 

Útskriftarverkefni af brautinni hefur þá sérstöðu að vera ekki lokaverkefni í sjálfu sér, heldur burtfararskref á vit nýrra skóla í öðrum löndum. Því er markmiðið með verkefninu að nemendur hafi náð styrkum tökum á hönnunarferlinu, að þeir geti sýnt leikni sína og getu til að hanna heildstæða byggingu.

Nafn brautar: Arkitektúr
Nafn gráðu: BA
Einingar: 180 ECTS
Lengd náms: 6 annir – 3 ár

Frá fagstjóra

Arkitektúr var í upphafi skilgreindur sem listin að reisa hús og fegra eftir ákveðnum reglum þar sem grunnstoðirnar eru fagurfræði, tæknileg geta og notagildi (venustas, firmitas, utilitas). Í seinni tíð hefur inntak fagsins orðið mun víðtækara og er allt hið manngerða umhverfi til umfjöllunar í arkitektúr þar sem mótun hins einstaka arkitektóníska verks mótar hið sameiginlega; almenningsrýmið. Samhliða því sem viðfangsefni arkitektúrs hafa orðið fjölbreyttari hefur hin samfélagslega ábyrgð og meðvitund aukist og þó svo að inntak fagsins í dag sé mun víðtækara en áður eru grunnstoðir þess enn í fullu gildi. Þannig erum við stöðugt að skoða umhverfi okkar og samfélag og draga fram blæbrigði þess með arkitektónískum verkfærum.

Massimo Santanicchia, dósent og fagstjóri í arkitektúr.