Í Listaháskóla Íslands eru sjö deildir, en innan þeirra eru starfræktar bæði námsleiðir á bakkalárstigi og á meistarastigi. 
Listaháskóli Íslands er miðstöð æðri listmenntunar á Íslandi. Skólinn er með viðurkenningu stjórnvalda á fræðasviði lista. Skipulag náms er grundvallað á Bologna - viðmiðum Evrópuríkjanna.

Listaháskólinn er skóli allra listgreina. Hann er einstakur á alþjóðavísu að því leyti að námsframboð er afar fjölbreytt en nemendur eru hlutfallslega fáir í samhengi við námsframboð. Listaháskólinn er eini háskólinn á fræðasviði lista á Íslandi og hefur því víðtæku hlutverki að gegna gagnvart landsmönnum. Skólinn starfar í alþjóðlegu umhverfi og miðar sig við þá skóla í nágrannalöndunum sem þykja skara fram úr í kennslu og miðlun þekkingar á sviðum lista.

Listaháskólinn er vettvangur fyrir nútímalega listsköpun og samfélag þar sem áhersla er lögð á að skerpa sköpunargáfu nemenda. Skólinn tekur virkan þátt í þjóðlífinu og tengir um leið íslenskan menningargrunn alþjóðlegu umhverfi lista og menningar með fjölbreyttum nemendahópi og samstarfi við erlenda listaháskóla.

Gildi

Þrjú megingildi eru höfð að leiðarljósi í allri starfsemi og viðfangsefnum í skólanum og stýra viðhorfum okkar og nálgun. 

Forvitni - Skilningur - Áræði

Af forvitni spyrjum við og leitum nýrra leiða, lausna og svara; við brjótum svörin til mergjar og leitum skilnings á því sem ókunnugt er; þannig eflum við með okkur áræði til að fylgja eftir sannfæringu okkar og listrænni sýn.

Stefnumótun

Listaháskólinn lítur á það sem hlutverk sitt að efla framsækna hugsun í listum og menningu og örva hvers konar nýsköpun og þróun á öllum sviðum. Skólinn veitir listmenntun á háskólastigi og miðlar til samfélagsins þekkingu og fagmennsku í listum.

Skólinn er samfélag nemenda, fræðimanna, kennara og annar starfsmanna þar sem jafnræði og virðing ríkir í öllum samskiptum. Hann starfar í alþjóðlegu umhverfi og miðar sig við þá skóla í nágrannalöndunum sem þykja skara fram úr í listrænum efnum.

Rektor

Fríða Björk Ingvarsdóttir er rektor Listaháskólans síðan 2013. Fríða Björk er með MA-gráðu frá Uni­versity of East Anglia í Norwich í 19. og 20. ald­ar skáld­sagna­gerð en námið var sam­tvinnað deild há­skól­ans í rit­list. Veiga­mik­ill þátt­ur í nám­inu var menn­ing­ar­fræðileg grein­ing á skap­andi list­um og sam­hengi þeirra við um­hverfið. Fríða Björk er með BA-gráðu frá Há­skóla Íslands í al­mennri bók­mennta­fræði og stundaði einnig nám til BA-prófs í Centre Uni­versi­taire de Lux­em­bourg.

Söguágrip

Listaháskóli Íslands er sjálfseignarstofnun.  Á stofnfundi 21.sept. 1998 var skólanum sett skipulagsskrá sem var undirrituð af fulltrúum Bandalags íslenskra listamanna og menntamálaráðherra. Dómsmálaráðherra staðfesti skipulagsskrána 29. sept. sama ár. Samkvæmt skipulagsskrá er hlutverk Listaháskólans að sinna æðri menntun á sviði listgreina. Skólinn skal jafnframt vinna að eflingu listmennta með þjóðinni og miðla fræðslu um listir og menningu til almennings.

Þann 24. mars 1999 undirrituðu skólinn og menntamálaráðherra yfirlýsingu sem fól í sér hvernig staðið yrði að uppbyggingu menntunarinnar. 

Listaháskólinn fékk starfsleyfi 10.júní 1999 og hóf þá um haustið starfsemi sína með rekstri myndlistardeildar.

Uppbygging Listaháskólans hefur verið hröð síðan rekstur hans hófst 1999. Í samræmi við yfirlýsinguna frá 24. mars 1999 hóf skólinn kennslu í leiklist haustið 2000 og í tónlist 2001. Skólinn hóf síðan rekstur sjálfstæðrar hönnunardeildar 2001 og ári síðar var tekið upp nám í arkitektúr, vöruhönnun og fatahönnun. 

Námi í kennslufræðum fyrir listafólk var skipaður sjálfstæður sess innan skólans frá og með haustinu 2001 og kennsla á meistarastigi hófst 2009.

Nýjar námsleiðir innan leiklistardeildar tóku til starfa haustið 2005, þ.e. eins árs dansnám í samvinnu við Íslenska dansflokkinn og þriggja ára nám í samtíma leiklistarstarfsemi sem kallast „fræði og framkvæmd.“ Námsleið í samtímadansi var stofnuð innan leiklistardeildarinnar 2007. Nafni deildarinnar var breytt í sviðslistadeild haustið 2014 og nafni námsleiðarinnar „fræði og framkvæmd“ var breytt í sviðshöfundanám.

Innan tónlistardeildarinnar var hafin kennsla á tveimur nýjum námsleiðum 2008, námsleið í kirkjutónlist til bakkalárprófs og námsleið í tónsmíðum á meistarastigi. Ári síðar tók til starfa ný námsleið á meistarastigi innan deildarinnar, Sköpun miðlun og frumkvöðlastarf sem er samevrópskt nám fimm tónlistarháskóla í Evrópu (NAIP). Haustið 2012 tóku til starfa tvær nýjar námsleiðir á meistarastigi, MA í hönnun og MA í myndlist. Nám á söng- og hljóðfærakennaranámsleið hófst haustið 2013, nám á söng- og hljóðfærakennaranámsleið á meistarastigi hófst haustið 2016 og haustið 2018 var sett á laggirnar námsleið á bakkalárstigi í rytmískri söng- og hljóðfærakennslu. 

Samfara uppbyggingu deilda hafa stoðsviðin þróast hvert með sínum hætti, þ.m.t. bókasafn og upplýsingaþjónusta fyrir allar listgreinar og tölvu- og netþjónusta. Rannsóknaþjónusta var stofnuð við skólann árið 2007.