Bókasafn og upplýsingaþjónusta Listaháskóla Íslands er sérfræðisafn á sviði þeirra listgreina sem kenndar eru við skólann og er safnið stærsta listbókasafn landsins. 

Bókasafn og upplýsingaþjónusta Listaháskóla Íslands var stofnað árið 1999 þegar Listaháskóli Íslands var stofnaður. Safnið er byggt á grunni bókasafns Myndlista- og handíðaskólans og bókasafns Leiklistarskóla Íslands og var safnkosturinn við stofnun um 13.000 eintök. Í fyrstu var safnið eingöngu starfrækt í Skipholti 1 og Sölvhólsgötu 13. Árið 2001 var opnað útibú í Laugarnesi og á árunum 2001-2016 var safnið með starfsemi í þeim þremur byggingum þar sem skólinn var með starfsemi sína. Árið 2016 flutti sviðslista- og tónlistarbókasafnið úr húsnæðinu á Sölvhólsgötu og sameinaðist safninu í Þverholti 11.

Meginhlutverk

  • Að veita nemendum og starfsfólki, auk annarra sem til skólans leita,  aðgang að fjölbreyttu efni um listir og menningu, s.s. fræðibókum, tímaritum, myndefni, leikhandritum og nótnabókum.
  • Að efla upplýsingalæsi nemenda og starfsfólks með fræðslu ásamt því að leiðbeina um notkun safnsins og aðstoða við leit  að upplýsingum í rafrænum gagnasöfnum.

Meginmarkmið

  • Að byggja upp og skipuleggja sérhæfðan safnkost á fræðasviðum skólans.
  • Að starfrækja nútímalegt rannsóknar- og sérfræðibókasafn á sviðum listgreina.
  • Að veita notendum auðveldan aðgang að heimildum innan og utan safnsins og fræða um hinar ýmsu upplýsingaleiðir.
  • Að veita sérhæfða upplýsingaþjónustu um myndlist, arkitektúr, hönnun, kvikmyndalist, leiklist, dans, tónlist og listkennslu.

Lánþegaskírteini eru gjaldfrjáls fyrir nemendur, kennara og starfsfólk LHÍ en aðrir lánþegar (utan skólans) greiða árgjald fyrir lánþegaskírteini samkvæmt gjaldskrá.

Ábendingar og fyrirspurnir um þjónustu bókasafnsins eða vefsíðu er hægt að senda til bokasafn [at] lhi.is

Flýtivísar