Tungumál, tunga, móðurtunga. Tungan sem sleikir sárin og nemur svita elskhugans. Tungan sem leitar næringar úr móðurbrjósti. Tungan sem er líkami, hold, vöðvi og slímhúð þar sem hún krýnir hryggsúluna. Tungan sem laugað hefur feldinn og elskað afkvæmi sín. Er það sama tunga og kerfisbundið hefur hlýtt skipun hugans um að einangra, sundra og aðgreina? Tungan sem lagði sér í munn orðin „viðrini, ólíkt mér“ og dró með því landamæri kringum sjálfa sig, Sjálfið? Geymum við ytra tungumál á jaðarsviði tungunnar, óháð henni – úttungumál? Sprettur það frá hryggnum líkt og úttaugakerfið? Hvernig tjáum við hugsanir, skynjanir, kenndir, upprunann og framtíðina í máli sem er of fjörmikið, viðkvæmt, absúrd, klikkað, sorglegt og margslungið til aðmiðla með orðum? Eru orðin ekki einungis efsti broddurinn, tungan af mun stærri líkama hins miðlaða máls?   

 

Mannlega þversögnin sem felst í því  að vera í senn afkvæmi náttúrunnar og aðskilin frá henni heillar mig og veldur mér heilabrotum. Hvað er tungumál annað en líkamleg athöfn? Hvað er hugur annað en líkamleg staða holds og blóðs? Samstilltir hjartslættir eru samskipti sem ekki er miðlað gegnum talað eða ritað mál. Hvernig stendur á því að við leggjum þennan þunga í orðin? Er það vegna valdsins sem við höfum á þeim og þar með finnum fyrir þegar við notum þau? 

 

Innblástur minn sprettur úr óaðgreinanlegum jaðarvíddum. Þar sem hugur og líkami hverfast í eitt, þróun og andi, vísindi og list, náttúra og menning. Þar sem tíminn er ólínulegur, illska er líka gæska, einfeldni og greind eru hið sama, kjánalegt og alvarlegt. Skrímslið hvílir í okkur öllum og við getum bent á það úr fjarlægð eða viðurkennt það og umfaðmað.