Söngur
Söngnámið við LHÍ er framsækið nám í stöðugri þróun og taka nemendur virkan þátt í því að móta námið. Nemendur eru hvattir til þess að þjálfa þá fjölbreyttu þætti og hæfni sem snúa að starfi og starfsvettvangi söngvara.
Nemendur vinna að því að ná góðu valdi á söngtækni með leiðbeinendum deildarinnar og gestakennurum. Einnig er unnið að túlkun og því að öðlast hæfni til þess að vinna á skapandi og sjálfstæðan hátt. Námið fer fram í einkatímum og í hóptímum. Áhersla er á valdeflingu, sjálfstæð vinnubrögð og að nemendur séu leiðandi gerendur í náminu.
Mikilvægt er að nemendur nái góðum tökum á framburði, bæði á íslensku og á erlendum tungumálum. Aukagreinar í íslensku, alþjóðlegu hljóðkerfi (IPA) og framburði stuðla að því. Unnið er markvisst að því að þjálfa leikrænt og skapandi ferli söngvarans þegar kemur að því að tileinka sér innihald verkefnanna. Við þetta styðja fjölmargar aukagreinar svo sem leiklist og hreyfitímar og þátttaka í fjölbreyttum verkefnum deildarinnar.
Allan námstímann fá nemendur fjölmörg tækifæri til þess að koma fram og er það mikilvægur hluti námsins að öðlast reynslu með því að taka þátt í fjölbreyttum verkefnum innan skólans sem utan hans svo sem á einsöngstónleikum, kirkjutónleikum, með kammerhópum, í kór, spunaverkefnum og í sviðsettum senum úr óperum. Sérstök áhersla er á flutning nýrrar tónlistar og hafa nemendur tækifæri til að vinna með tónsmíðanemendum og taka oft þátt í frumflutningi nýrra verka.
Nemendur fá tækifæri til þess að móta eigin áherslu og sinna þeirri tónlist sem þeir hafa mestan áhuga á en einnig að kynna sér fjölbreytta tónlist og uppgötva eitthvað nýtt.
Fagstjóri söngbrautar við LHÍ er hannas [at] lhi.is (Hanna Dóra Sturludóttir)