Alþjóðlegt meistaranám í sviðslistum
Meistaranám í sviðslistum er tveggja ára rannsóknarmiðað nám til MA gráðu fyrir listamenn sem vilja þróa aðferðir sínar og gera tilraunir og rannsóknir innan sviðslista. Námið fer fram á ensku.
Í umsóknarferlinu eru nemendur beðnir um að skila inn hugmynd að verkefni tengdu sviðslistum sem þau vilja þróa áfram og framkvæma á námstímanum. Verkefnið ætti að tengjast listrænu áhugasviði umsækjanda og byggja á fyrri verkum. Í náminu munu nemendur dýpka listræna vinnu sína með rannsóknum í virku samtali við samnemendur, leiðbeinendur, leiðandi listamenn og hugsuði innan sviðslista. Spennandi og lifandi námssamfélag býður nemendum tækifæri til þess að rækta tengsl sín innan LHÍ, við samstarfsmenn, áhorfendur og stofnanir.
Í náminu er lögð áhersla á að veita krefjandi en jafnframt styðjandi samhengi þar sem hver og einn nemendi getur þróað listræna vinnu sína - bæði með rannsóknum og listsköpun. Þetta er nám fyrir nemendur sem vilja þróa sig áfram sem sjálfstæðir, virkir, ábyrgir og gagnrýnir listamenn.
Fræðilegi hluti námsins veitir samhengi og innsýn inn í ólíkar aðferðir listrannsókna og miðar að því að dýpka skilning nemenda á sviðslistum í listrænu, félagslegu og pólitísku samhengi. Þar er litið á sviðslistir sem stækkandi fagsvið sem skarast á við ýmis önnur þekkingarsvið. Valáfangar veita nemendum möguleika á að dýpka hæfni sína og sérhæfingu innan sviðslista og/eða breikka og bæta við hæfni sína með vali þvert á önnur fagsvið. Náminu lýkur með 30 ECTS eininga rannsóknarverkefni. MA gráða í sviðslistum er góður grunnur fyrir listrænan feril og gefur einnig tækifæri til frekari rannsókna eða doktorsnáms.
Við leitum að þeim sem hafa áhuga á að staðsetja verk sín innan sviðslista. Í sviðslistadeild er kapp lagt á að auka aðgengi þeirra hópa sem hingað til hafa ekki átt greiðan aðgang að háskólanámi í sviðslistum. Því hvetjum við jaðarsetta hópa til þess að sækja um, svo sem fólk af erlendum uppruna, hinsegin fólk, fatlað fólk eða önnur.