Listaháskólinn ber ábyrgð á þróun fræðasviðs lista innan íslensks háskólasamfélags og leggur áherslu á rannsóknagildi sköpunar og listrænnar nálgunar.
 
Við skólann eru stundaðar fjölbreyttar rannsóknir þar sem unnið er með margvísleg efni, form og miðla.  
 
Aðferðafræði lista, sem uppspretta þekkingar, byggist á samþættingu sköpunar, fræða og rannsókna.
 
Frelsi og svigrúm er til tilrauna og þróunar nýrra rannsóknaaðferða fyrir tilstilli listsköpunar, auk þess sem unnið er eftir hefðbundnari rannsóknaraðferðum.
 
Afrakstrinum er ætíð miðlað á opinberum vettvangi. Borin er virðing fyrir ólíkri nálgun, viðfangsefnum og framsetningum.
 
Listaháskólinn er kjarnastofnun skapandi greina og forystuafl innan íslensks háskólasamfélags um þróun þeirra og viðgang.
Með framgangi listsköpunar vinnur skólinn atvinnulífi skapandi greina gagn og bætir við nýrri þekkingu í þessum greinum sem nýtist samfélaginu í heild.