Hljóðfæraleikur

Markmið hljóðfærabrautar er að mennta fjölhæft tónlistarfólk með góða þekkingu, leikni og hæfni í sínu fagi. Lögð er áhersla á víðtæka þekkingu og skilning á tækni, aðferðum og stíltegundum í tónlist, flutningi hennar og túlkun.  Nemendur skulu hafa innsæi til að nálgast viðfangsefni greinarinnar á einstaklingsbundinn hátt. Við deildina öðlast nemendur víðtæka reynslu í einleik og ýmiss konar samspili. 

Hóptímar og masterklassar eru vettvangur þar sem nemendum er leiðbeint af öðrum en aðalfagkennurum sínum. Margir íslenskir og erlendir gestakennarar heimsækja deildina á hverju ári. Kammertónlist og samspil eru mikilvægur þáttur í náminu ásamt námskeiðum í barokktónlist, samtímatónlist og sviðsframkomu. Einnig eru námskeið í grunnatriðum hljóðfærakennslu sem gera námið við deildina enn fjölbreyttara og áhugaverðara.

Að loknu bakkalárnámi í hljóðfæraleik og söng fara nemendur oftast utan til frekara náms en aðrir velja meistaranám við LHÍ í kennslufræði eða skapandi miðlun.

Námið við deildina er góður grunnur fyrir atvinnuhljóðfæraleikara  framtíðarinnar. Vegna fjölbreytni í fræði- og valfögum LHÍ, getur námið einnig nýst sem góður grunnur fyrir menningartengd störf í fjölmiðlum og við listastofnanir.

Hér má sjá yfirlit yfir kennara og námskeið tónlistardeildar LHÍ veturinn 2018 - 2019 með fyrirvara um breytingar.

Fagstjóri hljóðfærabrautar er Peter Maté, prófessor í hljóðfæraleik.

Nafn brautar: Hljóðfæraleikur 
Nafn gráðu: B.Mus
Einingar: 180 ECTS
Lengd náms: 6 annir – 3 ár

„Það getur verið mikill kostur að læra í lítilli deild. Hver nemandi skiptir miklu máli og getur fengið alla þá
athygli sem hann þarfnast frá fjölbreyttum hópi kennara. Allar brautir tónlistardeildar LHÍ eru mjög
samheldnar og starfa mikið saman, það leggur góðan grunn fyrir framtíðina. Gefandi samvinna hljóðfæranema 
við tónsmíðanema bætir samskipti, dýpkar skilning og eykur reynslu af skapandi og gagnrýninni hugsun,
sem er svo mikilvæg fyrir alla."

Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir

Frá fagstjóra

Tónlistardeild Listaháskólans er lifandi og skapandi samfélag nemenda og kennara með fjölbreytt framboð námsbrauta. Við deildina ættu því allir áhugasamir um nám í tónlist að finna sér námsbraut við hæfi. Boðið er upp á tvær námsbrautir þar sem megináherslan er lögð á þjálfun í hljóðfæraleik. Um er að ræða flytjendanám til BMus-gráðu  og kirkjutónlistarnám til BA-gráðu. 

Peter Máté