Hljóðfæraleikur

Markmið hljóðfærabrautar er að mennta fjölhæft tónlistarfólk með góða þekkingu, leikni og hæfni í sínu fagi. Lögð er áhersla á víðtæka þekkingu og skilning á tækni, aðferðum og stíltegundum í tónlist, flutningi hennar og túlkun.  Nemendur skulu hafa innsæi til að nálgast viðfangsefni greinarinnar á einstaklingsbundinn hátt. Við deildina öðlast nemendur víðtæka reynslu í einleik og ýmis konar samspili. 
 
Hóptímar og masterklassar eru vettvangur þar sem nemendum er leiðbeint af öðrum en aðalfagkennurum sínum. Margir íslenskir og erlendir gestakennarar heimsækja deildina á hverju ári. Kammertónlist og samspil eru mikilvægur þáttur í náminu ásamt námskeiðum í barokktónlist, samtímatónlist og sviðsframkomu. Einnig eru námskeið í grunnatriðum hljóðfærakennslu sem gera námið við deildina enn fjölbreyttara og áhugaverðara.
 
Að loknu bakkalárnámi í hljóðfæraleik og söng fara nemendur oftast utan til frekara náms en aðrir velja meistaranám við LHÍ í kennslufræði eða skapandi miðlun.
Námið við deildina er góður grunnur fyrir atvinnuhljóðfæraleikara  framtíðarinnar. Vegna fjölbreytni í fræði- og valfögum LHÍ, getur námið einnig nýst  fyrir menningartengd störf í fjölmiðlum og við listastofnanir.
Fagstjóri hljóðfærabrautar er Peter Máté, prófessor.

 

Nafn brautar: Hljóðfæraleikur 
Nafn gráðu: B.Mus.
Einingar: 180 ECTS
Lengd náms: 6 annir – 3 ár
 

FLÝTILEIÐIR

Tónlistardeild

Í tónlistardeild LHÍ eru frábærir kennarar, góður andi og hugmyndaríkir samnemendur. Maður getur mótað sína eigin leið eftir sínum eigin markmiðum og nýtur góðs af stuðningsneti frá starfsfólki og kennurum sem eru ekkert nema hjálpsemin með hvaða verkefni eða spurningar sem maður hefur.

Hægt er að sækja frábæra masterklassa með erlendum gestum og einnig býðst að fara í spennandi námsferðir utan landsteinanna. Það er mjög mikið af tækifærum í LHÍ því það er svo mikill mannauður í skólanum, bæði á meðal kennara og nemenda. 

 

 

Anna Þórhildur Gunnarsdóttir, píanóleikari

Frá Fagstjóra

“Tónlist er eina tungumálið í heiminum sem hver sem er getur skilið hvar sem er.” (C.Debussy)

Að miðla tónlist er skemmtilegt og göfugt starf sem krefst mikils dugnaðar, einbeitni og reynslu. Klassíska hljóðfæraleikarabraut LHÍ er byggð upp á góðum gömlum gildum en hún horfir einnig fram í tímann og er framsækin. Námið er fjölbreytt og kröfuhart og veitir ungu tónlistarfólki kunnáttu og styrk til framtíðarnáms og starfs.

- Peter Maté