Hér fyrir neðan og til hliðar er að finna ýmsar upplýsingar sem nemendur gætu þurft að nýta sér í námi. Svo sem yfirlit yfir þjónustu, tengiliði, tækni- og húsnæðismál og öll almenn samskipti. 

NEMENDASKÍRTEINI

Nýnemar fá afhent nemendaskírteini í upphafi skólaársins. Skírteinin eru þar að auki aðgangslyklar og auðkenniskort.

Glatist skírteinið ber að tilkynna það samstundis á skrifstofu Listaháskólans. Nemandi ber sjálfur kostnað að því að fá nýtt nemendaskírteini.

MÆTING OG ÁSTUNDUN NÁMS

Bakkalárnám
Listaháskólinn gerir kröfu um fulla mætingu nemenda í kennslu. Kennurum ber að hafa yfirlit yfir ástundun nemenda og skrá mætingu þeirra.

Ef fjarvistir nemanda, þ.m.t. vegna veikinda, fara umfram 1/5 af heildarfjölda kennslutíma í viðkomandi námskeiði telst hann fallinn í námskeiðinu. Sé um að ræða sérstakar og óviðráðanlegar ástæður getur nemandi sótt um undanþágu til rektors frá þessari reglu. Aðeins verður slík umsókn tekin til meðferðar að um sé að ræða að nemandi flytjist ekki á milli ára.

Meistaranám
Um ástundun náms á meistarastigi gildir það almennt að nemendur taki fullan þátt í starfi námsbrautarinnar og séu virkir þátttakendur hvort sem er í hópa- eða einstaklingsstarfi. Annars setja deildir sérákvæði, sem taka mið af eðli námskeiða.

 

FRAMVINDA NÁMS

Miðað er við að nemandi ljúki að jafnaði 60 einingum á námsári, eða sem nemur 30 einingum á önn. Ein eining (ECTS) jafngildir 25-30 klukkustundum í vinnu fyrir nemandann.

Nemandi er ábyrgur fyrir framvindu eigin náms innan skipulagsramma skólans. 

Sjá nánar skólareglur fyrir ítarlegri útlistun á framvindu náms. 

ÞJÓNUSTA

Á skrifstofu Listaháskólans geta nemendur við skólann fengið vottorð um skólavist og námsferilsyfirlit samdægurs. Útskrifaðir nemendur geta fengið prentað námsferilsyfirlit ásamt staðfestu afriti af brautskráningarskírteini og fylgiskjölum á háskólaskrifstofu Listaháskólans. Afgreiðsla þessara skjala tekur tvo til þrjá daga og kostar 500 krónur. Nauðsynlegt er að senda beiðni með nafni og kennitölu á netfangið til að fá skjölin afgreidd.

SIÐAREGLUR

Listaháskólinn setur sér sérstakar siðareglur sbr. 2. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla. Siðareglurnar eru ætlaðar nemendum, kennurum og starfsfólki skólans og eru viðmið ogleiðarljós í allri starfsemi hans. Siðareglurnar taka á þremur meginþáttum: almennum samskiptum innan skólans, samfélagi og umhverfi, og sköpun, kennslu og rannsóknum. Þær eru ekki tæmandi lýsing á góðum starfsháttum en lýsa andanum sem fylgt er. Siðareglurnar í heild sinni má nálgast á síðunni "Um skólann".

FUNDIR STJÓRNENDA MEÐ NEMENDUM

Rektor boðar til sérstakra funda með nemendum skólans þar sem rædd eru þau helstu málefni sem snerta nám þeirra í skólanum. Fundir rektors eru venjulegast haldnir snemma á vormisseri og er einn hópur nemenda á hverjum fundi, þ.e. nemendur á sömu námsbraut eða allir nemendur námsbrautarinnar.

Deildarforsetar halda fundi með nemendum viðkomandi deildar á síðari hluta haustmisseri, þar sem rætt er um málefni deildarinnar.

KENNSLUMAT

Við lok hvers námskeiðs eru nemendur beðnir um að fylla út svokallað kennslumat. Kennslumatseyðublaðið birtist á innri vef skólans og nemandi nálgast það með að slá inn viðeigandi lykilorð. Nemendur eru eindregið hvattir til að skila inn kennslumati við lok hvers námskeiðs þar sem matið er grundvallarþáttur í innra gæðastarfi skólans. Það tekur skamman tíma, en er afar mikilvægt fyrir nemendur, kennara og þróun deilda skólans.

Matið er unnið á grundvelli nafnleyndar en með því fást upplýsingar um skoðun nemenda á námskeiði og kennslu. Þannig er það vettvangur þeirra til að koma á framfæri ábendingum um það sem vel er gert og það sem bæta má. Forstöðumaður náms- og kennsluþjónustu skilar niðurstöðum til rektors og deildarforseta. Hver kennari fær aðgang að niðurstöðum kennslumats í sínu námskeiði í MySchool kerfinu. Ítrasta trúnaðar er jafnan gætt við meðferð kennslumatsgagna.

VEIKINDI OG FJARVERA

Veikindi
Nemandi sem vegna veikinda mætir ekki til prófs eða getur ekki lagt fram tilskilið verkefni til mats, innan þess frests sem gefinn er, skal tilkynna forföll áður en prófið hefst eða frestur rennur út. Læknisvottorði skal skilað á skrifstofu skólans til staðfestingar eigi síðar en þremur dögum eftir að próf var haldið eða skilafrestur rann út, annars telst nemandi hafa þreytt prófið eða tekið þátt í verkefnaskilum. Með læknisvottorði ávinnur nemandi sér rétt til sjúkraprófs.

Fjarvera úr prófi
Nemandi sem kemur ekki til prófs sem hann er skráður í og hefur ekki boðað forföll telst hafa þreytt prófið. Hann á þá ekki kröfu um að fá að taka endurtökupróf.

NÁMSMAT OG MEÐFERÐ ATHUGASEMDA

Niðurstöður námsmats skulu liggja fyrir eigi síðar en 10 virkum dögum eftir að námsmat fer fram. Nemandi sem ekki hefur staðist próf eða náð lágmarkseinkunn fyrir verkefni sitt getur óskað eftir útskýringum á einkunn sinni og skal sú ósk liggja fyrir eigi síðar en fimm dögum frá birtingu einkunnar. Vilji hann þá eigi una mati kennarans getur hann snúið sér til viðkomandi deildarforseta.

SJÚKRAPRÓF

Sjúkra- og endurtekningapróf skulu haldin vegna haustmisseris eigi síðar en 15. janúar og vegna vormisseris eigi síðar en 1. júní.

 

LOKAVERKEFNI

Námi í öllum deildum lýkur með lokaverkefni. Við mat á lokaverkefni og lokaprófi skal vera dómnefnd með a.m.k. einum utanaðkomandi prófdómara sem er formaður nefndarinnar. Rektor skipar í dómnefnd að fengnum tillögum viðkomandi deildarforseta. Nemendur sem ekki una matinu geta sent skriflegar athugasemdir og óskað eftir að dómnefndin endurskoði úrskurð sinn með tilliti til þeirra. Eftir það eru niðurstöður prófdómenda endanlegar. Formaður dómnefndar hefur úrskurðarvald í ágreiningsefnum innan nefndarinnar. Sérstakar reglur eru gefnar út um skil og framkvæmd verklegs hluta lokaverkefna.

BRAUTSKRÁNING

Aðalútskrift Listaháskólans fer fram að vori sem næst mánaðarmótum maí /júní. Nemendur sem þá ætla að ljúka námi, skrá sig í útskrift fyrir 15. mars
Nemendur sem ekki hafa náð tilskildum einingafjölda til að geta útskrifast við aðalútskrift geta sótt um brautskráningu að hausti eða miðjum vetri. Brautskráning að hausti fer fram um miðjan september og brautskráning að vetri fer fram um miðjan janúar. Sækja þarf um haustútskrift eigi síðar en 15. ágúst og eigi síðar en 15. nóvember fyrir vetrarútskrift.
Við skráningu í útskrift verða nemendur að vera skuldlausir við skólann.

NÁMSHLÉ

Nemendur geta tekið sér námshlé innan þess ramma sem reglur skólans setja um framvindu náms. Nemendur þurfa að tilkynna um námshlé á þar til gerðum eyðublöðum eigi síðar en 1. október vegna náms á haustmisseri og og fyrir 1. febrúar vegna náms á vormisseri. Námshlé getur að hámarki verið eitt ár og þarf að rýmast innan þeirra fjögurra ára sem samfelldur hámarksnámstími náms má vera. Greiðsla fyrir nemendur í leyfi er 37.500 kr. á önn.

ENDURTEKNING Á PRÓFI EÐA VERKEFNI

Standist nemandi ekki próf eða fellur í verkefni er honum heimilt að endurtaka það eða að óska eftir sérverkefni. Nemandi á eingöngu rétt á endurtöku eða sérverkefni vegna falls í námskeiði/námskeiðshluta að því tilskyldu að hann hafi uppfyllt mætingaskyldu. Sækja þarf sérstaklega um það til deildarforseta eða viðkomandi fagstjóra innan fimm daga eftir að einkunn er birt ef þreyta á endurtekningarpróf eða verkefni í annað sinn. Verði endurtekningu prófs ekki komið við getur deildarforseti ákveðið um sambærilegt verkefni. Falli nemandi á endurtekningarprófi/-verkefni verður hann að þreyta námskeiðið að nýju til að fá tilskildar einingar fyrir námskeiðið. 

Hafi nemandi staðist próf/verkefni getur hann óskað eftir, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi, að fá að endurtaka prófið/verkefnið. Heimili deildarforseti endurtöku skal hún fara fram í næsta skipti sem viðkomandi próf er haldið eða verkefni sett fyrir. Seinni einkunnin skal gilda.

MAT Á FYRRA NÁMI OG FYRNING EININGA

Í því tilfelli að fyrrverandi nemandi leitar eftir að fá að hefja nám að nýju við skólann og ljúka sínu námi þá gildir sú regla að hann fær metin þau námskeið sem enn eru kennd við skólann. Þessi regla miðast við að ekki séu liðin fleiri en 5 ár frá því að hann hætti sínu fyrra námi. Með sama skilyrði eru  önnur námskeið metin til eininga ef þau falla innan skipulags  þeirrar kennsluskrár sem fylgt er þegar nemandi hefur nám að nýju við skólann.

Varðandi þá nemendur sem sækja um að hefja nám þegar liðið er meira en fimm ár frá því að þeir hættu námi við skólann þá geta þeir sótt um að þeirrra fyrra nám sé metið með tilliti til gildandi kennsluskrár.

Sú almenna regla gildir að námseiningar fyrnast séu níu ár eða fleiri liðin frá þvi að nemandi hætti námi.

SKÓLAGJÖLD

Stjórn skólans ákveður fjárhæð skólagjalda og greiðslufyrirkomulag þeirra. Upphæð skólagjalda getur tekið breytingum en fylgir að öllu jöfnu vísitölu neysluverðs. Einungis þeir nemendur sem greitt hafa skólagjöld teljast skrásettir nemendur skólans og þeim einum er heimill aðgangur að skólanum.

Til að flytjast á milli missera þarf nemandi að hafa greitt skólagjöld.
Breytingar á skráningu með tilliti til skólagjalda eru ekki heimilaðar eftir 1. október á haustmisseri og 15. febrúar á vormisseri.

Skólagjöld eru háð breytingum milli ára.

Upplýsingar um skólagjöld má finna https://www.lhi.is/skolagjold

Nám í Listaháskóla Íslands er lánshæft. Tengiliður við Menntasjóð námsmanna er Dagmar Atladóttir, námsstjóri.

Menntasjóður námsmanna https://menntasjodur.is/