Meistaranám í söng- og hljóðfærakennslu M.MUS.ED
Meistaranám í söng- og hljóðfærakennslu er sniðið að tónlistarskólakerfinu á Íslandi og er námsbrautinni ætlað að mæta menntunarþörf tónlistarkennara sem starfa innan þess eða hafa hug á því. Meistaranám í söng- og hljóðfærakennslu er þverfaglegt nám á vegum tónlistar- og listkennsludeildar Listaháskóla Íslands. Meistaranámið er rökrétt framhald fyrir þá sem hafa lokið námi í hljóðfærakennslu á bakkalárstigi við tónlistardeild LHÍ. En það er ekki síður sniðið að tónlistarfólki og tónlistarkennurum sem eru með bakkalárgráðu eða aðra sambærilega menntun, starfandi kennurum í tónlistarskólum sem vilja efla sig í starfi og þróa.
Námið er tveggja ára fullt nám til 120 ects eininga en hægt er að taka námið með kennslu eða annarrri vinnu á þremur til fjórum árum og eru margir sem fara þá leið.
Einnig er í boði meistaranám í söng- og hljóðfærakennslu með aðfaranámi og er námsleiðin hugsuð fyrir nemendur sem hafa lokið a.m.k. 120 einingum á bakkalárstigi eða sambærilegu námi á sviði tónlistar. Aðfaranámið er til þriggja ára, 180 einingar.
Hver umsókn er metin sérstaklega.
Leiðarstef við mótun náms í söng- og hljóðfærakennslu er einstaklingsmiðun. Nemendur hafa um 18 einingar í svokölluðu áherslufagi sem þeir geta nýtt til að styrkja sig á völdu sviði.
Áherslufagið getur verið í formi hljóðfæra- eða söngtíma en einnig er hægt að velja aðrar áherslur. Dæmi um svið sem nemendur hafa valið sér er áhersla á spuna í kennslu, tónsmíðar í kennslu eða í raun á hvaða sviði sem nemendur telja mikilvægt til að efla færni sína á kennsluvettvangi. Við viljum sjá tónlistarnám þróast og styrkjast og þá er þessi þáttur námsins gríðarlega mikilvægur að okkar mati.
Fagstjóri meistaranáms í söng- og hljóðfærakennslu er elinanna [at] lhi.is (Elín Anna Ísaksdóttir).