Í sviðslistadeild er boðið upp á nám á fjórum námsbrautum:  leikarabraut, sviðshöfundabraut, alþjóðlega samtímadansbraut og alþjóðlega meistaranámsbraut í sviðslistum.   

 
Í sviðslistadeild stefnum við að því að mennta sjálfstætt  og skapandi sviðslistafólk sem hefur færni og hugrekki til þess að takast á við fjölbreytilegt starfsumhverfi sviðslista og láta til sín taka. Markmið sviðslistadeildar er að veita nemendum yfirgripsmikla þekkingu og þjálfun í sviðslistum. Stefnan er ekki aðeins að veita góðan tæknilegan grunn, heldur einnig að auka víðsýni nemenda og þeir kynnist í verki helstu möguleikum í sínu fagi, nýsköpun og skörun við aðrar greinar.  
 
Sviðslistadeild heldur utan um stefnumót nemenda við áhorfendur en deildin stendur fyrir fjölda viðburða og sýningar sem endurspegla námið. Viðburðir eru í formi kynninga á afrakstri vinnustofa og námskeiða í skapandi og túlkandi fögum, einstaklingsverkefni og lokaverkefni þvert á brautir en auk þess eru haldnar reglulegar málstofur og málþing um fagleg málefni.
 
Alþjóðasamstarf er mikilvægt í deildinni en nemendum gefst kostur á að fara í skiptinám og/eða starfsþjálfun erlendis, gestanemendur og kennarar frá erlendum menntastofnunum eru tíðir gestir í skólastarfinu og deildin er þátttakandi í erlendum samstarfsverkefnum og sviðslistahátíðum þvert á lönd og álfur.
 
Sviðslistadeild Listaháskólans er í góðum tengslum við grastrót íslenskra sviðslista og er einnig í samstarfi við helstu sviðslistastofnanir og hátíðir í landinu eins og Þjóðleikhúsið, Leikfélag Akureyrar, Útvarpsleikhúsið, Íslenska dansflokkinn, Lokal alþjóðlega leiklistarhátíð og Reykjavik Dancefestival. Inntökupróf er inn á allar brautir deildarinnar. Þriðja hvert ár eru ekki teknir inn nýir nemendur í sviðslistadeild.
 
Nám til bakkalárgráðu við sviðslistadeild er þriggja ára nám, 180 einingar en nám á meistarastigi er til 90 eininga.
 
 

Manifesto sviðslistadeildar

 

Við nálgumst listina af virðingu og auðmýkt

 

Við höfum hugrekki til að takast á við samtímann

 

Við notum söguna sem stökkpall inn í framtíðina

 

Við erum forvitin, víðsýn og framsækin

 

Við tökum áhættu

 

Við fögnum mennskunni