Hönnuðir hafa það hlutverk að breyta til batnaðar – að auka áþreifanleg og óáþreifanleg gæði. Hagnýtir eiginleikar hönnunar, fagurfræði og hugmyndafræði geta haft víðtæk áhrif á umhverfi og samfélag og koma við sögu oft á dag í lífi sérhverrar manneskju.
 
Hönnun er ekki afurð heldur aðferðarfræði sem byggir jöfnum höndum á rannsókn, rökhugsun, afstöðu, fagurfræði, innsæi og ímyndunarafli.
 
Í hönnunardeild er lögð áhersla á að nemendur kunni skil á fræðilegum forsendum hönnunar og geti út frá þekkingu sinni tekið ábyrga afstöðu til umhverfis og samfélags. Hönnun snýst að vissu leyti um að koma auga á möguleikana í því sem hefur enn ekki átt sér stað. Nemendur eru því stöðugt hvattir til að leita nýrra lausna og leiða og leggja sérstaka rækt við frumleika, ímyndunarafl og gagnrýninn hugsunarhátt.

 

Markmið hönnunardeildar

 • að bjóða upp á metnaðarfullt nám og kennslu
 • að þróa lærdómssamfélag kennara og nemenda
 • að þróa þverfagleg samvinnuferli í hönnun
 • að vinna að sjálfbærni
 • að byggja upp rannsóknamenningu sem styður sameiginlega þekkingarsköpun
 • að takast á við samtímaáskoranir í samfélaginu með aðferðafræði hönnunar
 • að koma menningu hönnunar á framfæri sem hreyfiafli í samfélaginu
 • að stuðla að uppbyggilegum breytingum í samfélaginu
Þar sem hönnun er breytingarafl til aukinna lífsgæða er mikil áhersla lögð á að nemendur takist á við þau málefni sem efst eru á baugi í samfélaginu. Miklu skiptir að beina athyglinni að staðbundnum aðstæðum í hnattrænu samhengi og að takast á við þá öfga sem felast í því að búa í fámennu landi með víðáttumikilli og stórbrotinni náttúru. 
Áhersla er lögð á að skilja hefðbundið og sögulegt samhengi fræðigreinanna sem námsleiðirnar tengjast og að bera fram nýjar spurningar um viðeigandi gildissvið, gerð og framleiðsluferli í nútímasamhengi. Allar faggreinar hönnunar verða að takast á við takmarkaðan aðgang að auðlindum. Nýsköpun þarf því að ígrunda vel og setja í samhengi við kerfisbundna sjálfbærni, að því er varðar nýtingu auðlinda, framleiðsluferla og lífsferil hráefna. 
 

Samstarf

Hönnun felur ávallt í sér samráð og samvinnu. Við hönnunardeild er leitast við að efla samtal og samstarf við fjölbreyttan hóp fagaðila og leikmanna, enda er það mikilvægur hluti námsins. Kennarar deildarinnar hafa stofnað til samstarfs við fjölda samtaka, stofnana og fyrirtækja um þróun verkefna sem unnin eru í námskeiðum og rannsóknar- og/eða þróunarverkefnum. Samstarfs-líkön eru margvísleg og í sífelldri þróun og mótun. Samstarf við mismunandi aðila veitir samræðu og samskiptum þann sess sem nauðsynlegur er í öllum samstarfstilraunum í sköpun og þverfaglegri hugsun.

Meðal samstarfsaðila eru:

 • Háskóli Íslands
 • Háskóli Reykjavíkur
 • Matís
 • Nýsköpunarmiðstöð Íslands
 • Rauði krossinn á Íslandi
 • Skógræktarfélag Reykjavíkur
 • Textílsetrið á Blönduósi