Umheimur okkar hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum áratugum.
Breytingar sem hafa umbylt öllu lífi fólks; hvernig það vinnur,
hvernig það hefur samskipti og hvernig það ver frítíma sínum.
Þessi bylting hefur snert öll svið samfélagsins og þar er starfsvettvangur
tónlistarfólks ekki undanskilinn.
Vegna tækniframfara, hnattvæðingar og síbreytilegs efnahags- og stjórnmálaástands
hefur tónlistarheimurinn tekið gríðarlegum breytingum,
sem ekki verður séð fyrir endann á. Þessar öru breytingar hafa einnig kallað á
breytt viðhorf til tónlistarnáms.
Markmið tónlistarháskóla hér áður fyrr voru skýr og einföld:
Að viðhalda nauðsynlegri nýliðun í þau tónlistarstörf sem
samfélagið þarfnaðist hverju sinni og var einkum að finna í hefðbundnum
tónlistarstofnunum líkt og hljómsveitum og óperuhúsum.
Þessi veruleiki hefur verið að þróast og breytast.
Sinfóníuhljómsveitir og óperuhús berjast í bökkum, rekstrarformi tónlistarstofnana
breytt og atvinnuöryggi tónlistarfólks á þessum vettvangi verður sífellt minna.
Þrátt fyrir þessa þróun, hefur störfum í tónlistargeiranum engu að síður fjölgað,
því að heimurinn og fólkið sem hann byggir þarf og mun alltaf þurfa á tónlist að halda.
Tónlistarstörf tengd tölvuleikjum, kvikmyndagerð, samfélagsþjónustu, internetinu og
hverskonar afþreyingu hafa aldrei verið fleiri.
Nýsköpun tónlistar hefur sjaldan verið blómlegri,
aðgengi að tónlist hefur aldrei verið meira og á vettvangi tónlistarmiðlunar
bíða fjölmörg tækifæri.
Við þörfnumst tónlistarfólks af öllum toga, því heimurinn allur getur verið
leiksvið okkar og möguleikarnir eru svo ótrúlega margir.
Við þörfnumst nemenda sem eru tilbúnir að feta hinn torfæra slóða
atvinnuhljóðfæraleikarans og söngvarans en við viljum einnig nemendur sem vilja
móta sína eigin vegferð á sviði tónlistarinnar.
Við þurfum frumkvöðla, við þurfum skáld, við þurfum fræðafólk,
tónlistarkennara af öllum toga, hljómsveitarstjóra, fjölmiðlafólk,
kórstjóra og svo mætti lengi telja.
Tónlistardeild LHÍ býður upp á fjölbreytt einstaklingsmiðað nám þar sem
nemandinn er í forgrunni og tækifærin til að móta það að eigin áherslum eru mörg.
- Tryggi M. Baldvinsson
Forseti Tónlistardeilda LHÍ