Segjum sem svo að þú hittir manneskju í fyrsta sinn, hún segir þér hvað hún heitir og hvað hún er að gera í lífinu, þið ræðið stuttlega saman og svo skiljast leiðir. Þú veist samt miklu meira um þessa manneskju en það sem fór á milli ykkar í orðum. Þú veist hvernig lykt er af henni, hvernig hún ber sig, hverju hún klæðist og hvernig röddin hennar hljómar. En förum aðeins lengra. Fannstu hvernig manneskjunni leið? Veistu hvort þig langar að hitta hana aftur? Ber hún með sér einhver áföll? Þú veist svörin við þessu öllu. Þó það sé ekki endilega skýrt fyrir þér akkúrat núna, þá veistu þetta einhversstaðar. 
Ég hef alltaf talist góður mannþekkjari og lengi hélt ég að það að vera góð í mannlegum samskiptum væri bundið því að hafa góð tök á orðum. Hinsvegar geri ég mér grein fyrir því núna að það er ekki svo einfalt, því í rauninni er það sem fólk segir þér ekki, það sem gefur þér lyklana að því að skilja þau betur í raun og veru. En hvernig skiljum við það sem er ekki sagt? 
Rupert Sheldrake er breskur vísindamaður sem hefur lengi verið að fást við kenningar um morphic resonance og morphic fields. Þessar kenningar útskýra t.d. afhverju náttúrulögmálin breytast með tímanum, hvernig DNA sameindir eru ekki það eina sem stjórnar því hvernig við erum og útskýra fjarskynjun (huglæg samskipti) á hátt sem að við öll getum skilið án þess að líða eins og við séum að „missa vitið.“ 
Ef þig langar að vita meira um það að vita, þá geturu kíkt við á bás UNGRA OG EFNILEGRA FJÁRFESTA DEL NORD á útskriftarsýningu LHÍ á Kjarvalsstöðum 4.-12. maí.