Sláðu inn leitarorð
Harpa Dís Hákonardóttir
Landris
Við erum stödd í iðrum jarðar. Ég fæ efnið lánaðan, við eigum samtal í níu daga og síðan skila ég því aftur heim.
Þegar efnið kemst í snertingu við húðina verður eitthvað til. Efnið dregur í sig fituna á húðinni, för og rákir hennar, það dreifir sér um húðina og þurrkar hana upp. Sköpunin felst í andartakinu, því sem átti sér stað, núna. Það kemur aldrei aftur, og þó, það gerist aftur; núna en þó aðeins öðruvísi í þetta skiptið.
Leirinn er efni úr jörðu og sé hann aðkeyptur, tilbúinn til notkunnar, pakkaður í plastumbúðir, tapast ákveðin jarðtenging. Með því að sækja leir úr íslenskri náttúru myndast tengingin við upprunann á ný. Verkið er hugleiðing um samband jarðar og manneskju. Vatn er mikilvægt í þessu sambandi, bæði fyrir okkur sem manneskjur og fyrir leirinn sem jarðefni. Náttúruleg hringrás leirsins sem sífellt tekur við og mótast af áreiti, veðri og vindum, harðnar og mýkist á víxl eftir því hversu mikill rakinn er. Athafnasviðið er á gólfi sýningarrýmisins svo áhorfendur geti mætt athöfninni við ólíkar aðstæður og frá öllum hliðum.
Lokaútkoma athafnarinnar skiptir ekki meginmáli heldur er gjörðin miðpunkturinn, við efnið og ég hringsólum í kring, áhorfendur þar fyrir utan.