Ég hrífst af „ljótum“ hlutum, svo mikið að ég tek eiginleika þeirra og geri af þeim mína útfærslu. Hlutum sem hafa ákveðið notagildi en verða að hlutverkalausum eftirmyndum þegar ég yfirtek þá og geri að mínum. Efniviðurinn er til dæmis rækjur, pulsur, súrar gúrkur og hversdagslegar krúsir og vasar. Ég gef þeim persónuleika með því að móta þá í leir, set mín fingraför í efnið. Ræni þá notagildinu en gef þeim persónuleika í staðinn. Til dæmis krúsir. 
 
Krúsir sem hafa engan tilgang. Krúsir sem eru ekki krúsir heldur eftirmyndir af krúsum. Þær eru alltof stórar, sverar og langar til að vera krúsir. Þær fá ekki að geyma sykur, hveiti eða smákökur. Tómar krúsir? Krúsir sem eru handverk án notagildis. Þær eru groddaralegar, afkáralegar og dæmalausar. Grófar og lífrænt sprottnar. Ofvaxnar og varnarlausar. Svangar og heyrnalausar. Voldugar, holdugar og óstöðugar. Fótfúnar og lúnar, skakklappa og handvana. Sumar kjósa að vera úti með tærnar í grasinu en aðrar inni meðal sýningargesta. Ljótar við fyrstu sýn en við nánari skoðun fellinga, bungna, stubba og handfanga þeirra lifna þær við. Ef hlustað er vandlega má jafnvel greina gaul.