Lifandi tónlist í lifandi skólasamfélagi

Iceland Airwaves Off Venue í Waldorfskólanum Sólstöfum

 
Verkefnið snerist um að halda tveggja daga tónleika í Waldorfskólanum Sólstöfum í samvinnu við tónlistarhátíðina Iceland Airwaves, sem hluta af Off Venue dagskrá, 1. og 2. nóvember 2017.  Off Venue tónleikar eru utan hefðbundinnar tónleikadagskrá Iceland Airwaves, auglýstir á vegum hátíðarinnar og opnir öllum.    
 
Markmið verkefnisins var að búa til vettvang þar sem nemendur gætu lært um tónlist á fjölbreyttan hátt, þar sem þeir fengju tækifæri til þess að upplifa og taka þátt í tónlistarflutningi, koma fram með sitt eigið efni, og tengjast lifandi tónlistarlífi, með þátttöku í alþjóðlegum samtíma tónlistarviðburði. 
 
Nemendur kynntust margvíslegum hljóðfærum, tónlistarstílum og tónlistarfólki, og  upplifðu stemninguna og eftirvæntinguna sem tengist því að taka þátt í viðburði af þessu tagi.  Lagt var upp með að nemendur tækju þátt í undirbúningi og í flutningi, bæði með æfð atriði og í frjálsu flæði.  Með verkefninu var nemendum gefinn kostur á því að taka þátt í og upplifa alþjóðlegan samtíma tónlistarviðburð, í stað þess að einungis lesa um hann eða heyra um hann.
 
Ávinningur þess að halda alþjóðlegan tónlistarviðburð í grunnskóla var sá að tónlistarkennsla fékk aukið vægi innan skólans, menningarlíf skólans styrktist og aukið tengslanet myndaðist við starfandi tónlistarfólk, innanlands og utan.  Tækifæri gafst til þess að fara út fyrir rammann og prófa eitthvað nýtt í hefðbundnu hátíðahaldi skólans, sem nú er stefnt á að gera að árlegri hefð. 
 
Í Waldorfskólanum Sólstöfum er framtíðarsýn að leggja aukna áherslu á tónlist og með því að búa til vettvang sem tengir tónlistarfólk við skólann verður til samvinna sem styrkir tónlistarlíf skólans og skólamenningu.
 
vigdis_gigja.png
 

 

 
Vigdís Gígja Ingimundardóttir
vigdisgigja [at] gmail.com
Leiðbeinandi: Guðbjörg R. Jóhannesdóttir
2018