"Það þarf hjarta í Mosó"

Möguleikar í myndrannsóknum og gagnrýnu, listrænu grenndarnámi

 
Þessi rannsókn er hugsuð sem smættuð útgáfa af námsferli sem byggt væri á gagnrýnu listrænu grenndarnámi og hugsuð fyrir alla aldurshópa. Þar væri tengt saman sveitarfélag, nærsamfélag, fjölskyldur, kennarar og nemendur í umhverfi sínu til þess að byggja upp heildstæðar manneskjur sem yxu saman í námsferli til lýðræðislega vakandi og virks samfélags.
 
Notuð er myndrannsókn með Photovoice aðferð til þess að kanna viðhorf íbúa bæjarfélags og nemenda skóla til umhverfis síns og beina kastljósi að röddum þeirra. Ég lýsi eigin kennslureynslu og þróun starfskenningar sem leiðir mig að ástæðum, undirbúningi og fræðilegu samhengi rannsóknarinnar. Þá tekur við framkvæmd og vinnsla með SVÓT greiningu á niðurstöðum sem sýndu sterkan samhljóm í tengingu og sýn þátttakenda á bæinn sinn og umhverfi hans.
 
Þættir er lúta að innra umhverfi skipulagsheildar voru nefndir sem styrkleikar og veikleikar, en þátttakendur bentu einkum á umhverfisþætti sem styrkleika bæjarins á meðan ólíkir skipulagsþættir voru tíndir til sem veikleikar. Hvað varðar ógnir og tækifæri voru ytri umhverfisþættir meira áberandi, þar sem slysahætta, mengun og umhverfisáhrif voru talin til ógna, en tækifæri voru talin liggja í þáttum sem stuðla að farsælu sambandi við náttúruna ásamt skerpingu heildarsýnar.
 
Niðurstöðurnar voru svo nýttar í þróun og uppsetningu staðbundinna þátttökulistaverka. Verkin gerðu raddir og sjónarhorn þátttakenda sýnilegri og veittu tækifæri á áframhaldandi samtali og endurgjöf áhorfenda, sem með því urðu einnig þátttakendur.
 
Heildarniðurstöður varpa ljósi á hversu margþættir en vannýttir möguleikar búa í myndrannsóknum og listrænum aðferðum, bæði til aukinnar dýptar í eigindlegum rannsóknum og áhrifa á umhverfisvitund og lýðræðislega virkni, innan og utan skóla.
 
 
 
Þórdís Eva Þorleiksdóttir
disevan [at] outlook.com
Leiðbeinandi: Dr. Ásthildur B. Jónsdóttir
30 ECTS
2021