Hugardans 

Hvað gerist ef við setjum hreyfingu sem er byggð á hreyfiþroskamynstrum barna inn í kennslustofuna?

 

Hvað gerist ef við setjum hreyfingu sem er byggð á hreyfiþroskamynstrum barna inn í kennslustofuna? Notast var við kennsluaðferðina Brain-compatible dance education frá Anne Green Gilbert til að leitast við að svara rannsóknarspurningunni.
 
Kennsluaðferðin snýst um að skapa námsumhverfi þar sem heilinn getur, vill og er tilbúinn til að læra, m.a. með því að nota Braindance, eða hugardans.
 
Hugardans er byggður á átta hreyfimynstrum sem barnið fer í gegnum fyrsta æviárið. Rannsóknin fór fram í einum grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu á haustönn 2021.
 
Á hverjum degi, í um það bil 3 - 7 mínútur, gerðu nemendur  hugardansinn undir leiðsögn umsjónarkennara. Þátttakendur voru 52 nemendur í 1., 3. og 5. bekk ásamt umsjónarkennurum. Í hverri viku fengu kennarar nýja nálgun um hvernig ætti að gera hugardansinn út frá dansþemum.
 
Notast var við eigindlega rannsóknaraðferð þar sem rannsakandi kom í heimsókn tvisvar sinnum í viku á tímabilinu, hélt rannsóknardagbók, tók viðtöl við kennara, átti samtöl við nemendur, lagði fyrir spurningalista ásamt því að taka upp myndbandsbrot af nemendum að gera hugardansinn til greiningar.
 
hugardans_.png
 

 

 
Niðurstöðurnar benda til þess að hugardansinn bjóði upp á tækifæri í skólastarfi. Þær gefa til kynna að skólaumhverfið hafi rými og stund til að gera hugardansinn, kennarar geti leitt hann og hægt sé að nýta hreyfingu inni í kennslustofunni í meira mæli en nú er.
 
Nemendur voru almennt jákvæðir og virkir. Þeir fundu fyrir breytingum eftir að hafa gert hugardansinn, nokkrir fundu fyrir þreytu en flestir nefndu breytingar í formi aukinnar orku og einbeitingar, vellíðan og ró, sem og aukið sjálfstraust, atriði sem geta haft jákvæð áhrif á frekari námsframvindu nemenda.
 
Kennarar öðluðust ný verkfæri til að beita í kennslu og nemendur verkfæri sem nýtast bæði innan og utan kennslustofunnar. 
 
 
8._gudrun_oskarsdottir_gudrunoskarsswift.is_-9.jpg
Mynd: Owen Fiene
 
Guðrún Óskarsdóttir
gudrunoskars [at] swift.is
Leiðbeinandi: Ingimar Ólafsson Waage
30 ECTS
2022