Hjálmar sjötugur í tónlistardeild föstudaginn 25. nóvember kl. 12:45

Í tilefni sjötugsafmælis Hjálmars H. Ragnarssonar tónskálds og fyrrverandi rektors LHÍ býður tónlistardeild til samtals við Hjálmar og mun Þorbjörg Daphne Hall dósent í tónlistarfræðum ræða við hann um verk hans og listrænan feril. Þar munu Herdís Anna Jónasdóttir og Áshildur Haraldsdóttir leika brot úr Noktúrnu fyrir fjölrása rafhljóð, sópran-rödd og altflautu (1977 / 2022) og Sif Tulinius mun leika brot úr Partítu fyrir sólófiðlu (2020) eftir Hjálmar og segja frá upplifunum sínum af verkunum.

hjalmar_stor.jpg
 

Hjálmar H. Ragnarsson

Hjálmar hefur verið atkvæðamikill sem tónskáld hér landi allt frá því hann flutti heim 1980 að loknu framhaldsnámi í Bandaríkjunum og Hollandi. Verk hans spanna allt frá einleiksverkum til stærri sinfónískra verka, og frá einsöngslögum til söngleikja og ópera. Hann hefur samið tónlist fyrir fjölda leiksýninga og fyrir kvikmyndir, auk þess sem hann hefur unnið með ýmsum kórum og sönghópum bæði sem tónskáld og stjórnandi.

Hjálmar hefur látið að sér kveða í félagsstarfi listamanna og menningarpólitík, m.a. var hann formaður Tónskáldafélags Íslands 1988 - 92 og forseti Bandalags íslenskra listamanna um átta ára skeið. Hjálmar var ráðinn fyrsti rektor Listaháskólans við stofnun skólans haustið 1998, og stýrði hann uppbyggingu hans þar til hann lét af störfum sumarið 2013.

Þá hefur Hjálmar unnið mikið að rannsóknum á íslenskri tónlist, m.a. er hann frumkvöðull að endurreisn tónlistar Jóns Leifs, og hann hefur skrifað fjölmargar ritgerðir og greinar um íslenska tónlist og gert útvarpsþætti með íslenskum tónskáldum. Hjálmar býr í Kópavogi en er nú með jafnt aðsetur í Brüssel.