Einkasýning Braga Hilmarssonar opnar fimmtudaginn 1. október 2020 kl. 17:00 – 19:00 í Huldulandi, Laugarnesvegi 91. Sýningin er í röð einkasýninga nemenda á 3. ári í myndlist.

ATH vegna núverandi ástands verður sýningin aðeins aðgengileg almenningi í gegnum beint streymi á vefnum kl. 17:30 sem nálgast má HÉR

Fýsn alda á ágæti bjaðar og þess yfir

Mannfólk elskar að eigna sér muni og eiginleika úr náttúrunni og óskar sér þess að geta beitt yfirnáttúrulegum öflum. Sannanir á þessari staðreynd má finna nánast hvar sem er. Á heimilum og skrifstofum flestra má finna pottablóm, kvikmyndir og tölvuleikir njóta góðs af áhuga viðskiptavina á ofurkröftum og hinu yfirnáttúrulega, listamenn hafa stundað það að endurgera náttúruöfl þar sem þau eiga ekki heima, fólk ferðast til að heimsækja náttúruminjasöfn sem á móti hagnast á miðasölu, og svo mætti lengi telja.

Sýningin Fýsn alda á ágæti bjaðar og þess yfir samanstendur af fimm myndum. Þær sýna líkama sem búa yfir ómennskum eiginleikum að eiga ómögulegar upplifanir í einkennilegu umhverfi. Myndirnar eru allar unnar út frá ljósmyndum sem ég hef tekið á Íslandi, settar saman án tillits til landfræðilegs samhengis þeirra staða sem skeytt er saman í þeim tilgangi að útbúa einstakt landslag og útsýni fyrir persónurnar sem á þeim birtast. 

Myndefnið er unnið á þessu ári með nýjustu tölvutækni úr nýstárlegum ljósmyndum af ævafornu jarðmyndunum Íslands. Orðalag titlanna vísar í bragarháttinn fornyrðislag, einn elsta bragarhátt íslenskunnar og eina fyrstu tegund listar sem birtist hér á landi. Fornyrðislag hefur komið í og farið úr tísku í gegnum aldirnar og helst gjarnan í hendur við rómantíska list.

 

Á tímabilinu 1. október - 26. nóvember stendur yfir röð einkasýninga BA nemenda á 3. ári í myndlist, alls 24 sýningar.

Á hverjum fimmtudegi opna í senn þrjár einkasýningar á mismunandi sýningarstöðum í Listaháskólanum í Laugarnesi; í Kubbnum á 2. hæð, í Naflanum sem er inni í miðju skólans á 1. hæð og í Huldulandi sem staðsett er norðanmegin á 1. hæð. Opnanir eru frá kl. 17 - 19 á fimmtudögum.

Facebook viðburður / Allar einkasýningar 3. árs nema í myndlist