Myndlistarsýning í Grasagarði Reykjavíkur í Laugardal: Hugsandi haugur
 
Nemendur á fyrsta ári í meistaranámi við myndlistardeild Listaháskóla Íslands opna sýningu á verkum sínum í Grasagarði Reykjavíkur í Laugardal, laugardaginn 23. mars kl. 14:00-16:00.
Sýningin er öllum opin og stendur til 2. apríl. Almennur opnunartími: 10:00-15:00. Enginn aðgangseyrir.
 
Sýningin er unnin í samstarfi við Grasagarð Reykjavíkur og nemendur í listfræði við Háskóla Íslands. Myndlistarmennirnir koma frá ýmsum löndum og heita: Emil, Heimir Snær, Laura Wiemers, Linnéa Jonsson, Manuel Strube, Marzieh Amiri, Nicole Desautels, Sandijs Ruluks, Sunniva Allanic, Vala Sigþrúðar Jónsdóttir og Wanxin Qu. Sýningarstjórar eru Bryn Nóel Francis og Hreinn Hákonarson.
Á sýningaropnun laugardaginn 23. mars, verður myndlistarmaðurinn Wanxin Qu með gjörning kl. 14:30 og 15:30, sem stendur í 10 mínútur í hvort skipti.
Föstudaginn 29. mars verða listamennirnir Emil, Heimir Snær, Vala Sigþrúðar Jónsdóttir og Wanxin Qu ásamt sýningastjórunum Bryn Nóel Francis og Hreini Hákonarsyni með leiðsögn um sýninguna frá 14:00 til 15:00. Einnig verður Bryn Nóel Francis með leiðsögn um Hugsandi haug á íslensku táknmáli, laugardaginn 30. mars kl. 14:00-15:00.
 
Verk myndlistarmannanna tengjast með einum eða öðrum hætti garðinum og náttúrunni almennt. Heiti sýningarinnar, Hugsandi haugur, vekur upp ýmsar spurningar.
 
Í upphafi íslenska vorsins safnast haugur af listamönnum af ýmsum rótum og bakgrunnum saman þar sem einmitt gróa þannig rætur innan landslags Grasagarðsins. Það eru nefnilega margar faldar sögur sem dvelja í lifandi safni sem þrá að vera fundnar. Stökkbreyttar og blendnar verur og plöntur bjóða gestum að heyra raddir sem tala um sannindi og skynsemi. Hvað getur maðurinn fundið annað en sjálfan sig þegar horfst er í augu við samvisku og samkennd?
 
Hver er merking titilsins Hugsandi haugur? Getur haugur hugsað?
Haugur, hrúga, stafli, bingur, dyngja, hlaði, kös. Þegar orðinu haugur er flett upp í orðabók verður merking titilsins nokkuð ljós. Haugur af listamönnum úr ýmsum áttum kemur saman í lifandi umhverfi og listrænn kraftur þeirra skýtur rótum. Haugur skapar nefnilega líka gerjun og þá verður eitthvað nýtt til, og listaverk þeirra blómgast.
Grasagarður Reykjavíkur er ekki aðeins umvafinn húsum og fólki heldur líka rótum. Hann fagnar rótum listamannanna sem eru fullir af eldmóði og í garðinum kvikna hugmyndir að listaverkum sem tengjast með einum eða öðrum hætti sambandi náttúrunnar og mannsins.
 
Garðurinn býr yfir öllu sem listamaður þarf: orku, birtu, næringu, sköpun og frjósemi. Garðurinn er viðfang þessara listamanna sem haugast þangað inn og tekur utan um listamennina og hið manngerða inngrip sem þeir skapa. Listamennirnir finna rætur sínar – draga lærdóma af öllum rótum garðsins sem hvíla misdjúpt í moldinni, hógværar, asalausar og skylduræknar við lífið. Þekking og þroski tekur tíma og það vita listamennirnir – eins og rætur garðsins. Haugurinn hugsar, og manneskjan líka, bæði í Grasagarðinum og í eigin garði.
 
Listamennirnir fara forvitnilegar leiðir í nálgun sinni á náttúruna í hinu manngerða umhverfi Grasagarðsins í Laugardal. Þeir eru sér vel meðvitaðir um að þeir komast aldrei frá hinu mannhverfa sjónarhorni í hugsunum sínum og samskiptum við náttúruna. Þess vegna grípa þeir til margvíslegra ráða til að brúa bilið milli manns og náttúru. Þeir bregða á leik, vekja forvitni, setja hluti í nýtt samband, grafa sig svo að segja ofan í leyndardóma garðsins og uppgötva leiðir til að koma þeim á framfæri í hljóðum, hreyfingum og myndum. Í sýningunni eru garðurinn og náttúran sem lifandi vera í líflegum samskiptum við listamennina sem bera ómælda virðingu fyrir náttúrunni. 
 
Listamenn:
Þinn taktur, 2024
Emil (f. 1998) hóf myndlistarnám í Listaháskóla í Maryland, Baltimore, í Bandaríkjunum, og lauk BA-prófi í myndlist frá Glasgow School of Art 2023. Hann er þverfaglegur myndlistarmaður og í verkum sínum fæst hann við sjálfsíhugun, líkamsvitund og samspil náttúrulegs og félagslegs umhverfis. Hann skoðar og gengur á hólm við skynjun okkar og samband við hið náttúrulega umhverfi með gagnvirkum skúlptúr, innsetningum og gjörningum í almenningsrými, samhliða því nýtir hann sér þekkingu sína í tónlist og dansi.
Emil hefur búið til stóran gagnvirkan viðarskúlptúr fyrir Grasagarðinn. Taktur verksins er innblásinn af takti og mynstri í náttúru sem og í mannlegri hegðun. Viðarskúlptúrinn kannar hugtökin forvitni og íhugun. Sjálft verkið býður gestum að kynnast því af eigin raun og ganga inn í takt þess og hlusta.
 
Af skugga, 2024
Nærveran
Dags armur
Heimir Snær (f.1993) er myndlistarmaður með bakgrunn í málverki og kvikmyndagerð. Hann lauk prófi í listmálun frá Myndlistaskólanum í Reykjavík 2022 og frá Cumbria-háskólanum á Englandi með BA-Hon. prófi í myndlist. Í málverkum sínum, innsetningum, skúlptúrum og vídeóverkum, leitast hann við að svipta hulunni af því sem listin ætlar sér og dregur fram hin ósýnilegu tengsl milli hins raunverulega og þess hverfula. 
Heimir Snær sýnir verk sem ber latneskan titil, Per Umbra (ísl. Af skugga). Líking þess sem þú elskar, dægurlína og hönd listmálarans. Skuggi fylgir ljósi, og með skugga er hold.
 
Ef mér skilst rétt, þá berð þú hlýhug til mín, 2024
Það eru nokkrir ánamaðkar sem bera nafn afa míns, 2024
Laura Wiemers (f. 1997) stundaði nám í myndlist við Bauhaus-háskólann í Weimar í Þýskalandi. Hún er nú í meistaranámi í myndlist við Listaháskóla Íslands. Laura vinnur þverfaglega með gagnvirkum hlutum, innsetningum, teikningum, hljóðum, snertingu og hreyfingu. Markmiðið er að skoða efni í síbreytilegu ferli í tengslum við það sem manneskjan hefur á prjónunum, fyrirætlanir hennar og þrár. 
Haugurinn verður betri eftir því sem hann er eldri. Þekking og allt sem á hlut í henni tekur umskiptum og rennur saman í eitthvað nýtt. Rætur og ánamaðkar ásamt öðrum lífverum taka haugnum fagnandi og hefja starf sitt með umbreytingum og niðurbroti. Ánamaðkar eru eins og starfslífverur náttúrunnar og geta veitt svör við verufræðilegum spurningum og skáldlegum vangaveltum sem banka upp á í lífinu. Við skulum takast á við splundraða skilgreiningu á eilífðinni og sjálfsvitundinni en samtímis halda nánum tengslum við umhverfi haugsins í Grasagarðinum!
 
Sænskur ofn. Þetta getur verið ódýr kostur ef þú hefur aðgang að eldviði, en það krefst handavinnu, 2024
Linnéa Jonsson (f. 1986) lauk námi við Konstfack í Svíþjóð 2018 þar sem hennar helsta viðfangsefni var hversdagsleikinn. Hún vinnur einnig með samband manns við hluti og sjónarhorn hans á umhverfið sem hann skapar og býr í. Linnéa Jonsson vinnur með ýmsa miðla, aðferðir og margs konar efnivið í verkum sínum. Þá vinnur hún innsetningar, vídeóverk, prentverk og þátttökuverk. Í námi sínu við Listaháskóla Íslands hefur hún beint sjónum sínum að frumefnum jarðar og sambandi þeirra við lífríkið í smáu sem stóru.
Á sænsku er ofn kallaður Element, stutt fyrir värmeelement. Orðið hefur því tvær merkingar á sænsku, raunverulegt frumefni og ofn, en einnig má vísa til grunnhluta heildarinnar. Fura hefur verið og er enn ein algengasta verslunarvara Svíþjóðar. Sagaður viður var í fimmta sæti yfir mest flutta vörur frá Svíþjóð á síðasta ári.
 
Þegar verið er að ræða rætur, 2024
Manuel Strube hefur lagt stund á skúlptúr í myndlistardeild Berlin Weißensee Academy of Art frá 2018. Hann fæst einkum við rannsóknir á því hvar list, tækni, tónlist og hljóð eiga sér sameiginlega snertifleti. Manuel Strube sérhæfir sig í gerð stórra umlykjandi innsetninga sem breyta rýminu sem þær eru unnar inn í. Verkum hans er ætlað að ögra hefðbundnum mörkum listarinnar. Manuel notar tækni til að tengjast áhorfendum og hafa gagnvirkt samband við þá.  
Fyrir  verk sitt í Grasagarðinum hefur Manuel safnað viðtölum við íslenska innflytjendur sem hann hefur kynnst persónulega. Úr földum hátölunum í blómabeðunum munu heyrast nokkur brot úr þessum viðtölum.
 
Vitni, 2024 
Marzieh Amiri (f. 1983) er með BA-próf í hefbundinni íranskri list og grafískri hönnun frá Háskóla Írans. Í verki hennar fyrir samhengi Grasagarðsins, segir Marzieh okkur sögu konu sem kallar ekki á hjálp. Verk Marzieh fjalla um þöggun kvenna í heimalandi hennar Íran, glæpi gegn konum sem eru virtir að vettugi. En hér eru vitni, plönturnar hafa orðið vitni að ofbeldisfullum glæp. Er kannski von? Í verkum sínum byggir Marzieh á kenningum Clive Bakster, sérfræðings í lygamælum, frá því 1973, um plöntur sem hugsandi verur sem sjálfar virka eins og lygamælar.
 
Ekki í minni sveit, 2024
Nicole Desautels (f. 1991) er kanadískur myndlistarmaður með íslenskar og franskar rætur. Hún lærði myndlist í Háskólanum í Manitóba, Kanada, og stundar nú meistaranám í myndlist við Listaháskóla Íslands. Nicole Desautels vinnur með ýmsa miðla, til dæmis skúlptúr og málverk. Hún vinnur einnig með tímatengda miðla eins og vídeó- og gjörningaverk, og tengir þessa miðla og aðferðir þeirra saman. Sköpunarkraftur hennar á sér rætur í gamansömum fáránleika mannlífsins, poppmenningu, háðsádeilum, einnig skoðar hún hugarheim barna og leyndardóma ímyndunaraflsins.
Í verki sínu í Grasagarðinum grefst Nicole Desautels fyrir um merkingu þess að vernda heimilið og sjálfsvitundina. Gæsirnar sýna hve óttaslegin við erum og bundin ákveðnum svæðum, sem og þörf okkar á að vernda okkur sjálf þegar við upplifum aðsteðjandi ógn. Torfbærinn endurspeglar þrá manneskjunnar um að tilheyra einhverju og eiga heimili.  En getur okkur í raun og veru liðið sem við séum heima ef við erum stöðugt að vernda okkur sjálf?
 
Safn brenndrar fortíðar, 2024
Sandijs Ruluks (f. 1980) er margmiðlunar myndlistarmaður sem vinnur að vídeóverkum og ljósmyndum. Hann lauk námi í hönnun við Listaháskólann í Lettlandi og stundar meistaranám í myndlist við Listaháskóla Íslands. Hann vinnur með miðla á sviði myndlistar og hönnunar og nýtir sér þar ljósmyndun og myndbandsupptökur í leit að skipulögðu öngþveiti (e. chaos). Í verkum sínum vinnur hann einnig með hugmyndir um tímann og hvernig hann er skynjaður.
Verkið í Grasagarðinum verður búið til í rauntíma á staðnum, þar sem hann notar viðarkol sem eru gerð úr trjám garðsins.
 
Kanína 1 – miðstökk, 2024
Kanína 2 – bara eyru og magi, 2024
Kanína 3  rof, tvíföldun, 2024
Sunniva Allanic (f. 2000) er frönsk-írsk og stundar nám við Listaskólann í Nantes í Frakklandi. Hún er núna skiptinemi við Listaháskóla Íslands á vorönn 2024. Í verkum sínum skoðar Sunniva formgerð dýra og nú einkum kanínunnar. Í skúlptúrverkum sínum setur hún fram formgerð dýranna með tvíræðum hætti svo óljóst er hvort dýrið sé við það að fæðast eða umbreytast, sofandi eða dautt. Úr verkum hennar má lesa tilfinningu um að eitthvað sé glatað eða týnt og breytt með óafturkræfum hætti. 
 
Smá spennt, smá stillt, 2024
Vala Sigþrúðar Jónsdóttir (1993) býr og fæst við myndlist í Reykjavík. Hún útskrifaðist með BA-gráðu frá Gerrit Rietveld Academie árið 2018, og lauk meistaragráðu í listkennslu frá Listaháskóla Íslands árið 2022. Undanfarin ár hefur hún unnið innsetningar og skúlptúra sem velta fyrir sér efniskennd textíls og hreyfimynda, og tengslum þessara tveggja miðla við umhverfi og kerfi manneskjunnar. Um þessar mundir vinnur hún að verkum um textíl á hreyfingu, þar sem þráðarspenna spilar lykilhlutverk.
 
Paradís í leik, 2024
Wanxin Qu (f. 1993) er með BA-gráðu í búningahönnun frá Listaháskólanum í London. Hún vinnur með ýmsa miðla svo sem skúlptúr, hljóðinnsetningar, tónlist, gjörninga, brúðugerð, búninga, og „stop-motion“ teiknimyndagerð.
Innblástur í verkið Paradís í leik (e. Play Paradise), sækir Wanxin Qu með þeim hætti að hún skoðar hvernig börn skapa með leik og forvitni ímyndaðan heim þegar þau leika sér. Ímyndunaraflið gefur þeim ofurkraft og vekur dauða hluti til lífs. Í Grasagarðinum fær hún gesti til að stíga inn í þennan heim þar sem hún hvetur áhorfendur á öllum aldri til að taka þátt í ævintýraparadís. 
 
Sýningastjórar:
Bryn Nóel Francis (f. 1996) lauk BA-prófi við Háskóla Íslands í táknmálsfræði með listfræði sem aukagrein árið 2022. Hann hefur starfað í Döff-samfélagi Íslands gegnum árin og vinnur með táknmálstalandi börnum í tvítyngdum leikskóla. Hann vinnur að ýmsum verkefnum samhliða við að rannsaka Döfflist. Hann skoðar aðallega myndlist jaðarhópa og menningarheima, ásamt kerfi tungumála og samskiptahefðir, samfélög og hulda heima. Bryn Nóel Francis vinnur einnig með blendnar sjálfsmyndir, diaspora, sambönd, tíma og minningar hvort sem er í sýningargerð eða í eigin myndlist.
 
Hreinn Hákonarson (f. 1952) lauk prófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1981 og BA-prófi í listfræði í febrúar sl. og stundar nú meistaranám í listfræði. Hann var prestur í þjóðkirkju Íslands í 40 ár og lengst af fangaprestur. Hreinn hefur þýtt fjölda bóka og ritað fjölmargar greinar í blöð og tímarit; skrifað prósa og samið leikrit. Hann rekur veftímaritið Kirkjubladid.is og er ritstjóri þess. Áhugamál hans eru listir, skógrækt og menningarmál. Einnig vinnur hann náttúruskúlptúra úr trjábolum í frístundum sínum. Hann er kvæntur, á fjögur börn og 9 barnabörn.