Andhverfa

Í bland við sjávarniðinn suða háspennulínur – sú sinfónía minnir á að í Hvalfirði eru stanslaus átök milli náttúru, sögu og tíma. Hvalstöðin var eitt sinn herstöð en verður nú vígvöllur og heimili loftslagsbaráttu. Þar með verður byggingum, sem eitt sinn voru eyðileggjandi afl, snúið í andhverfu sína. Á grunni úreltrar starfsemi rís aðstaða sem myndar snertifleti milli aðgerðasinna og vísindamanna. Uppbygging þorpsins endurspeglast í breyttri efniskennd þar sem timbur og gler opna steypta veggi. Ásar sem finnast í umhverfinu beina sjónum að gæðum svæðisins. Hið ytra mótar hið innra, og það sem gerist í stórum skala hefur áhrif á hinn minni. Í stöðugri umgengni við hringrás náttúrunnar lærir samfélagið að búa í sátt við hana.