Lokaverk mitt er tónaljóð flutt í anda tónleikhúss skrifað fyrir raddaflóð, einsöngvara, klarínett, bassaklarínett, fiðlusystur og sellóstelpu. Ljóðið samdi ég sjálf og hyggst skapa heim þess með tónum og hljóðum. Tónleikarnir verða í Aðventkirkjunni við Ingólfsstræti 19 kl. 20.00 þann 13. maí - allir eru hjartanlega velkomnir.

Ragnheiður Erla hóf tónlistarnám sitt fjögra ára gömul í Musikalische früherziehung für Kinder í Hanover, Þýskalandi. Á uppvaxtarárum sínum kannaði hún heima hinna ýmsu hljóðfæra. Hún lærði á fiðlu hjá Charles Ross í Tónlistarskóla Egilsstaða og hélt því námi áfram í Tónlistarskóla Mosfellsbæjar. Einnig lærði hún á básúnu hjá Daða Þór Einarssyni í Lúðrasveit Mosfellsbæjar og á þverflautu hjá Jóni Guðmundssyni. Fimmtán ára gömul hóf hún söngnám hjá Ragnheiði Árnadóttur í Listskóla Mosfellsbæjar. Ásamt tónlistarskólanum var hún virk í leikfélagi Mosfellsbæjar og tók þar þátt í ýmsum uppfærslum.

Eftir ævintýri æskunnar lá leið Ragnheiðar Erlu í Listaháskóla Íslands þaðan sem hún mun útskrifast í vor úr tónsmíðum undir handleiðslu Hróðmars I Sigurbjörnssonar. Með náminu hefur Ragnheiður samið tónlist fyrir ýmsa miðla, þar á meðal auglýsingu fyrir Apple í Hong Kong og íslensku kvikmyndina Webcam. Hún vinnur nú að tónlist fyrir kvikmyndina Snjór og Salóme sem mun koma í öll helstu kvikmyndahús í október. Einnig vinnur hún að tónlist fyrir útskriftarverkefni dansara með Ingibjörgu Ýr Skarphéðinsdóttur.