Lífsleikni

Útskriftarverkefni Bjarkar Hrafnsdóttur í meistaranámi í sýningagerð.

Einkasýning Dýrfinnu Benitu Basalan í Listval 23.04.22 – 30.04.22

Innblástur sýningarinnar fannst í skólastofunni, gömlum stílabókum og barnabókmenntum. Á sýningunni lítur Dýrfinna til baka á æskuna og tilfinningarnar sem fylgja því að sitja fastur í skólakerfi, dagdreyma og þrá frelsi. Við fylgjum samt kerfinu og bíðum spennt eftir sumarfríinu, frelsinu, en eftir skólann tekur við ískaldur raunveruleikinn sem jafnast ekki á við ævintýralegu dagdraumana. Við lítum aftur á þessi augnablik sem höfðu svo gríðarlega mikil áhrif á mörg okkar. Með verkum sínum hleypir Dýrfinna okkur inn í draumkennda minningu þar sem kunnuglegir hlutir taka á sig örlítið skringilegri mynd. Hugmyndir Dýrfinnu hlutgerast í málverk, teikningar og skúlptúra úr stáli og við. Gestir sýningarinnar eru þátttakendur og geta speglað minningar sínar í verkunum og mögulega séð sitt eigið ferðalag í nýju ljósi.

Undirbúningur sýningarinnar einkenndist af nánu samstarfi þeirra sem að henni komu. Sérstaklega má nefna samtal og skapandi samvinnu Dýrfinnu og Steinars Ingólfssonar. 

Sýningin er endapunktur á tveggja ára löngu meistaranámi  Bjarkar Hrafnsdóttur í sýningagerð við Listaháskóla Íslands. Á þessum tíma hefur Björk verið að þróa sína aðferðafræði þegar kemur að sýningarstjórnun og sýningagerð en hún leggur áherslu á samtal og náið samstarf í undirbúningi og aðdraganda sýningar. Samtal milli tveggja eða fleiri einstaklinga getur falið í sér einstaka þekkingarsköpun sprottna upp úr reynslu og menningarlegum bakgrunni þátttakenda. Til að nánast óhindruð þekkingarsköpun geti átt sér stað telur Björk að til staðar þurfi að vera umhyggja, virðing og traust, sem hún kallar hin mjúku gildi. Þegar þessi gildi eru virt stuðla þau að opnu og hreinskilnu samtali sem hentar sérstaklega vel ef viðkvæm málefni eða hughrif eru viðfang listsköpunarinnar og verka á sýningu.

Í þessu tiltekna samtali tóku þátt þrír einstaklingar, Dýrfinna Benita Basalan, listamaður, Steinarr Ingólfsson, grafískur hönnuður og Björk Hrafnsdóttir, sýningarstjóri.

Dýrfinna Benita Basalan (f.1992), einnig þekkt undir listamannsnafninu Countess Malaise, er fædd og uppalin á Íslandi. Árið 2018 útskrifaðist hún frá Gerrit Rietveld Academie með B.A. gráðu í myndlist og hönnun og hefur starfað síðastliðin ár sem myndlistarkona á fleiri en einum vettvangi. Hún dregur myndheim sinn ýmist úr jaðar kúltúrum, manga, hinsegin menningu sem og af persónulegri reynslu sinni sem einstaklingur með fjölbreyttan menningarbakgrunn. Dýrfinna er einn þriggja  meðlima Lucky 3 hópsins ásamt Melanie Ubaldo og Darren Mark, en hópurinn er handhafi hvatningarverðlauna Myndlistarráðs 2022.

Steinarr Ingólfsson (f. 1993) er fæddur og uppalinn í Reykjavík. Hann útskrifaðist frá Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam með B.A. gráðu í myndlist og hönnun árið 2017. Síðan þá hefur hann starfað sem grafískur hönnuður fyrir hin ýmsu menningarframtök, listhópa og tískumerki. Steinarr hefur aðsetur í París þar sem hann hefur starfað sem prent- og vöruhönnuður fyrir tískumerkið Balenciaga frá 2019.

Björk Hrafnsdóttir (f.1993) ólst upp í Reykjavík og er með BA gráðu í listfræði frá Háskóla Íslands og Sorbonne IV í Frakklandi. Hún er að ljúka meistaranámi í sýningargerð við Listaháskóla Íslands þar sem hún rannsakar áhrif persónulegrar reynslu listamanna á verk þeirra, feminísk fræði og sýningar-aktivisma. Megináhersla Bjarkar er á náið samstarf milli hennar og þeirra listamanna sem hún vinnur með.

1._bjork_hrafnsdottir_bjorkh20lhi.is-3.jpg