Útskriftartónleikar Steingríms Þórhallssonar frá tónlistardeild Listaháskóla Íslands fara fram í Neskirkju, sunnudaginn 13. maí klukkan 17. Þar verður verk hans Hulda fyrir sópran, kór, barnakór og hljómsveit frumflutt en verkið byggir Steingrímur á ljóðum Huldu (Unnar Benediktsdóttur Bjarklind). Að auki verður Konsert fyrir fiðlu og hljómsveit eftir Beethoven fluttur á tónleikunum. Sinfóníuhljómsveit áhugamanna leikur undir stjórn Oliver Kentish, einleikari er Hulda Jónsdóttir, fiðluleikari. 

Flytjendur í verki Steingríms:
Hallveig Rúnarsdóttir, sópran,
Drengjakór Reykjavíkur,
Kór Neskirkju
Sinfóníuhljómsveit áhugamanna

Um verk sitt, Huldu, skrifar Steingrímur eftirfarandi:

„Í nokkur ár hef ég verið að semja kórtónlist við ljóð Huldu, en ég á ættir mínar að rekja norður í land, en Hulda bjó lengi á Húsavík. Þetta verk er samið við tvö ljóð hennar, Ljáðu mér vængi og Segðu það móður minni, nokkuð draumkennd ljóð og má heyra það sums staðar í verkinu. Verkið tileinka ég konunum í mínu lífi og er verkið mitt framlag og hvatning til minna æskuslóða um að muna eftir listamönnum sínum, bæði lífs og liðnum og kynna fyrir unga fólkinu sínu fyrirmyndir eins og Huldu.“

Steingrímur Þórhallsson ólst upp á Húsavík þar sem hann hlaut sína fyrstu tónlistarmenntun við Tónlistarskólann á Húsavík. Hann fluttist síðan til Reykjavíkur og lauk píanókennaraprófi árið 1998 frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, undir leiðsögn Önnu Þorgrímsdóttur píanókennara og kantorsprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar 1998 með Martein H. Friðriksson dómorganista sem orgelkennara. 

Þá um haustið lá leiðin til Rómar í Kirkjutónlistarskóla Páfagarðs, Pontifictio Istituto di Musica Sacra. Þaðan tók hann lokapróf, Magistero di organo, sumarið 2001 undir leiðsögn Giancarlo Parodi. 

Frá haustinu 2002 hefur Steingrímur starfað sem organisti og kórstjóri við Neskirkju jafnframt því að starfa með ýmsum tónlistarhópum á Íslandi. 

Vorið 2012 lauk Steingrímur B.A. námi í tónsmíðum við Listaháskóla Íslands. Steingrímur hefur komið fram í mörgum af helstu kirkjum á Íslandi bæði sem einleikari og meðleikari á tugum tónleika, t.d. á Alþjóðlegu orgelsumri í Hallgrímskirkju þar sem hann hefur m.a. frumflutt eigin tónverk. Hann hefur leikið á nokkrum hljóðritunum hjá Ríkisútvarpinu, m.a. tvo orgelkonserta eftir Händel með Sinfóníuhljómsveit Íslands. 

Hann hefur komið fram á tónleikum erlendis, m.a. víða á Ítalíu, Finnlandi og Eistlandi. Þá hefur hann náð góðum árangri við stjórn Kórs Neskirkju, Stúlknakórs Neskirkju og Drengjakórs Reykjavíkur. 

Í vor lýkur Steingrímur mastersnámi í tónsmíðum frá tónlistardeild Listaháskóla Íslands og eru tónleikarnir liður í útskrift hans. 

Heimasíða Steingríms Þórhallssonar

Ljósmynd af Steingrími: Leifur Wilberg.