Einkasýning Brákar Jónsdóttur opnar fimmtudaginn 15. október kl. 17:00 – 18:00 í Naflanum, Laugarnesvegi 91. Sýningin er í röð einkasýninga nemenda á 3. ári í myndlist.

ATH vegna núverandi ástands verður sýningin aðeins aðgengileg almenningi í gegnum beint streymi á vefnum kl. 17:45 sem nálgast má HÉR

Kálfafellsrófan

Í sýningunni bindur Brák Jónsdóttir saman gáttir raunveruleikans og ímyndunar í rannsókn á hinni dularfullu Kálfafellsrófu. Listamaðurinn setur sig í hlutverk könnuðar sem beinir hugarfluginu á hversdaginn og dregur hluti hversdagsins inní samhengi myndlistar. Hugarheimur og ferli Brákar er bundið forvitni og leikgleði, hún laðast að hinu sérkennilega og seiðandi, vinnubrögðin eru líkamleg og niðurstaðan ber þess vitni. Í innsetningunni hefur Kálfafellsrófunni verið komið fyrir í umhverfi sem ýtir undir dulúðlega ímynd hennar og rótgrónu menninguna sem umlykur hana.

Kálfafellsrófan er íslenskt yrki sem varðveist hefur í fjölskyldu Lárusar Helgasonar bónda á Kálfafelli í meira en 110 ár. Fræ hennar er heirloom fræ þ.e fræ sem gengur kynslóða á milli, einhvers konar ættargripir í formi fræja. Fólk sem safnar heirloom fræjum líkt og Lárus sem safnar er mikið hugsjónafólk sem drifið er áfram af sannri ástríðu. Það er ekki bara að vernda fræin ein og sér, heldur viðheldur það þekkingu um viðkomandi fræ í samfélaginu og hjálpa þannig ákveðnum yrkjum að vera hluti af menningunni sem við lifum í. Eftir að gerðar voru rannsóknir á fræi Kálfafellsrófunnar kom í ljós að DNA hennar er einstakt á heimsvísu. Með þær upplýsingar í huga hefur Lárus velt fyrir sér orsök rófunnar á Kálfafelli og m.a. varpað fram þeim möguleika að rófan hafi komið utan úr geim og orðið til vegna geimgeislunnar.

Dagbók 6. október 2020
Leit að samhengi: ferðin að gróðurstað rófunnar.

Haustregnið drýpur niður enni mitt, vanga og fingur, niður í frjóa fold sem iðar af iðnum áðnamöðkum í jarðvegi. Ég feta ókannaðar slóðir, hugsa mér falda veruleika sem vekja forvitnar hugsanir um tilveru og samstarfsnet undir fæti, hugsanir safnara undir sólu, frjóa hugsun í frjóvgandi ferli. Hvaðan, hvenær, hvernig dafnar hún svo einstök á vandlega völdum stað, umlukin óhaminni náttúru? Ég feta farinn veg í sólarljósi sem nærir lífið og greini ljósstafi úr fjarska, þeir falla á dökkan sjávarsandinn er ég færi til geymslu, fræ til geymslu meðal annars sem hrærist í hugann. Raunveruleiki verður skáldskapur.

Á sýningunni eru tilvísanir í heim vísinda, safna, geymslu og mismunandi miðla myndlistar sem renna saman og varpa þannig nýju ljósi á Kálfafellsrófuna. Við erum minnt á þörf mannfólks til að mæla hluti út frá sjálfu sér, færa hluti úr stað og laga umhverfi sitt eftir eigin hugsjónum, varðveita það sem talið er sjaldgæft, (eitthvað meira kannski). Áhuga þess á einstakri áferð og fallegum litum, á því sem er dularfullt og daðrar við hugmyndina um yfirnáttúruleika.

Á tímabilinu 1. október - 26. nóvember stendur yfir röð einkasýninga BA nemenda á 3. ári í myndlist, alls 24 sýningar.

Á hverjum fimmtudegi opna í senn þrjár einkasýningar á mismunandi sýningarstöðum í Listaháskólanum í Laugarnesi; í Kubbnum á 2. hæð, í Naflanum sem er inni í miðju skólans á 1. hæð og í Huldulandi sem staðsett er norðanmegin á 1. hæð. Opnanir eru frá kl. 17 - 18 á fimmtudögum.

Facebook viðburður / Allar einkasýningar 3. árs nema í myndlist