Ég vinn með plast, það óforgengilega efni. Þegar ég hef fundið það hráefni sem verður notað í verkin hefst ferlið. Að horfa á þetta ónáttúrulega efni falla saman og kremjast undir miklum hita og umbreytast við bræðsluna og mynda form, form sem geta tekið á sig margar myndir. Í þessu ferli hef ég fulla stjórn, stjórn á mér og bræðslu plastsins.
Ég kemst ekki hjá plastinu, fremur en plastið kemst hjá mér. Í þessu eiturefni kanna ég tenginguna á milli þess náttúrulega og ónáttúrulega. Þarna er áhugaverð andstæða. Allt kemur og fer, en samt sem áður eigum við það til að halda í gamlar hefðir: pönk, retro, vintage-föt, skærgulir netabolir og elegant stíll. Myndlistin er eins og upplifun okkar á samfélaginu, hún fer í hring eftir hring. Tækni og aðferðir halda líka árfam að þróast en liststefnan virðist halda sér.
Ein áhrifaríkasta leiðin til þess að ná markmiði er að uppgötva nýtt. Líta djúpt inn á við og kalla það fram í eigin listsköpun. Við skiljum eftir okkur mikið af ónáttúrulegum efnum og „rusli“. Efni á borð við plast eyðist ekki nema á árhundruðum. Í gegnum plastið tala ég við sjálfa mig og samtímann; reyni að búa til samræðu.