Sláðu inn leitarorð
Sigrún Erna Sigurðardóttir
Fjársjóðurinn í mánasjóði
Plantan mánasjóður hefur alla tíð verið partur af lífi mínu og frá því að amma mín kynnti hana fyrir mér hef ég tengt plöntuna við hana. Hún ræktar plöntuna í garðinum sínum sem eitt sinn var garðurinn okkar. Í Feng Shui fræðum er talið að plantan muni gefa frá sér peningaorku, sé hún höfð í horni, þá annað hvort í horni í garði eða í horni inni í rými. Amma hefur ræktað mánasjóð af fæjum sömu plöntu í yfir 50 ár, hún dreifir síðan plöntunni ár hvert til fjölskyldunnar og vina til að deila fjársjóði mánasjóðs. Fjársjóðurinn er ekki endilega peningar í bókstaflegri merkingu, heldur umhyggja og óskir um velgengni.
Nýlega las ég bókina The Secret Life of Plants (1973) og kenningar Cleve Bakster sem hélt því fram að plöntur muni eftir fólkinu sem umgengst þær og að þær hafi tilfinningar og finni jafnvel til. Þessar kenningar vekja áhuga minn og ég spyr mig hvort mánasjóður muni eftir ömmu minni eða hvort plantan eigi eftir að muna eftir mér? Hvað vita plöntur og hvernig upplifa þær umhverfi sitt og þá sem umgangast þær?
Í verkefni mínu Fjársjóðurinn í mánasjóði færi ég plöntuna mánasjóð inn í almeningsrými Reykjavíkurborgar, á Klambratúnið. Klambratún er áhugaverður staður fyrir mánasjóð, garðurinn hefur mörg horn og væru því mörg beð tilvalin fyrir plöntuna. Garðurinn er í almenningseigu og væri því mikið af fólki sem gæti kynnst plöntunni á tveggja ára lífstíma hennar, og að sama skapi myndi plantan kynnast mörgu fólki. Ég hef ræktað fræplöntur út frá fræjum ömmu minnar og óska ég þess að þær fái að klára tveggja ára lífstíman sinn á Klambratúni. Það verður áhugavert að sjá hvort plöntunni takist að festa sér rætur í íslenskri grundu, þar sem plantan hefur alla þrautseigu sem hún þarf til að lifa af íslensk skilyrði. Einnig sýni ég þurrkuð laufblöð af fræbelgjum plöntunnar í glugga Kjarvalsstaðar en þar er gegnsæi blaðanna í aðalhlutverki og litir þeirra í undirleik. Mig langar með þessu verki að dreifa orkunni sem ég og amma mín trúum á, þessi dýrmæta planta getur því veitt almenningi lukku og hamingju eins og hún hefur veitt mér og fjölskyldu minni í áraraðir.