Lokaverkið mitt samanstendur af málverkaþrennu. Málverkin eru olíu-málverk sem máluð eru á striga, en þó að miðillinn sé heldur hefðbund-inn þá uppfæri ég hann með því að nota liti og lýsingu á óhefðbundinn hátt. Málverkin sýna þrjú andlit. Fyrsta málverkið er sjálfsmynd, annað málverkið er andlitsmynd af systur minni, og það þriðja sýnir samblöndu af andliti mínu og systur minnar. Ég þekki systur mína ekki vel, en hóf nýlega að spjalla við hana á Facebook. Ég hef aðeins einu sinni hitt hana og bróðurparturinn af því sem ég veit um hana kemur frá pabba mínum. Pabbi minn er frá Rússlandi og hefur búið í Sankti Pétursborg síðastliðin tíu ár. Við systur þekkjum hann ekki vel, en hann hefur aldrei verið til staðar fyrir okkur. Mér þykir leitt að hafa aldrei kynnst systur minni betur, en hún býr í sömu borg og ég ólst upp í. Ég vil hitta hana, en að sama skapi líður mér undarlega þegar ég hugsa til þess að kynnast henni. Hingað til hefur hún aðeins verið ímynd, og ég hef áhyggjur af því að ef ég kynnist henni betur eyðileggist sú ímynd. Ef ég kynnist henni verður hún að manneskju með sjálfstæða tilvist, en tilgangur verkanna er að miðla þessum tilfinningum. Ég hef legið yfir ljósmyndum af systur minni í þeim tilgangi að sjá líkindi með okkur. Málverkin hafa þó ekki gert hana raunverulegri, hún flýtur enn.