Einkasýning Aniku Baldursdóttur opnar fimmtudaginn 3. október kl. 17:00 – 19:00 í Kubbnum, Laugarnesvegi 91. Sýningin er í röð einkasýninga nemenda á 3. ári í myndlist.

Delta – ástarsamband veiðimanns og fisks úr Villingavatnsársós

Sýningin Delta er innsetning sem fjallar um ástarsamband veiðimanns og fisks úr Villingavatnsársós. Delta (ósinn) er fallegur og í senn hryllilegur veiðistaður í Þingvallavatni þar sem náttúruöfl og veðurbreytingar geta skipt sköpum og varpar rými verkanna ljósi á bæði fegurð og grófleika. Veiðimaðurinn og fiskurinn birtast áhorfanda í gegnum skúlptúra úr mismunandi efnivið og fer ástarfundur þeirra fram í ósnum sem liggur á gólfinu.

Síðastliðnar vikur hef ég unnið með hina ýmsu miðla; leir, gips, klippimyndir, málverk, textabrot og fundið efni. Sýningin er afrakstur þessarar vinnu, þar sem ég tekst á við að segja sögu í gegnum sýningarformið, flötinn og rýmið. Ásamt skúlptúrunum birtast textabrot úr laginu Tvær stjörnur eftir Megas, sem hefur almennt verið túlkað sem bæði saga um ástarævintýri og ástarmissi en sá texti er samtal veiðimannsins og fisksins. Í rýminu er einnig skúlptúr úr timbri sem vísar í sumarbústaði sem liggja í kringum ósinn við Þingvallavatn.

Með innsetningunni leitast ég við að varpa ljósi á hvað gerist þegar óhefðbundin ást fer í hefðbundinn búning dægurlags og hin þunnu mörk á milli þess að lifa og deyja, fegurðar og hryllings, vera ástfangin eða í ástarsorg, í gegnum hluti sem spila saman eftir kaotísku samskiptakerfi.

Á tímabilinu 3. október - 21. nóvember stendur yfir röð einkasýninga nemenda á 3. ári í myndlist, alls 24 sýningar.

Á hverjum fimmtudegi frá 3. október - 21. nóvember opna í senn þrjár einkasýningar á mismunandi sýningarstöðum í Listaháskólanum í Laugarnesi; í Kubbnum á 2. hæð, í Naflanum sem er inni í miðju skólans á 1. hæð og í Huldulandi sem staðsett er norðanmegin á 1. hæð. Opnanir eru frá kl. 17 - 19 á fimmtudögum.

Facebook viðburðurAllar einkasýningar 3. árs nema í myndlist