Kirstín Erna Blöndal

Meistaranám í sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi
kirstin_erna_blondal.jpeg
 

Kirstín Erna Blöndal lýkur Meistaranámi í sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi frá tónlistardeild Listaháskóla Íslands. Laugardaginn 6. maí kl. 17:00 verður K. Erna með tónlistargjörning sem ber yfirskriftina „Tónmóðir eilífðarinnar“ Viðburðurinn fer fram í Eilliðavatnsbænum í Heiðmörk.

Flytjendur:

Kirstín Erna Blöndal, söngur
Arndís Lóa Magnúsdóttir, ljóðskáld flytur eigið ljóð
Sönghópurinn himmnaljós, söngur
Örn Arnarson, gítarleikur

Sigrún Bragadóttir, listakona og aktivisti og Arndís Lóa Magnúsdóttir, ljóðskáld komu að vinnu við innsetningu.
 

Tónmóðir eilífðarinnar

Tónmóðir eilífðarinnar er tónlistargjörningur sem fjallar um tónlist við úrvinnslu sorgarinnar, endanleikans og eilífðarinnar. Tónlist eftir K. Ernu Blöndal verður flutt við ljóð eftir Hallgrím Pétursson, Jónas Hallgrímsson, Auði Övu, Arndísi Lóu Magnúsdóttur. Lokaritgerð K. Ernu fjallar um rannsókn á þeirri dýrmætu sálgæslu sem hlustun og samtal um tónlist felur í sér og mátt tónlistarinnar í sorgarferlinu.
Rannsóknin er í raun tvíþætt annarsvegar fjallar hún um mikilvægi þess að syrgjendur fái að koma að skipulagningu tónlistar við útför ástvinar. Þá fjallar hún einnig um upplifun fólks sem sótti tvenna tónleika hennar tileinkaða syrgjendum.

Bakgrunnur Ernu í tónlist er mjög fjölbreytilegur. Hún stundaði klassískt söng- og píanónám í mörg ár og eftir kynni hennar af kórsöng varð hún strax mikið kórdýr.
Erna nýtur þess að syngja með öðrum og upplifa tandurhreinan samhljóm, hreyfingu og túlkun tónlistarinnar. Sérhæfing Ernu hefur verið sú að geta sungið nokkurn veginn hvað sem er og hvaða stíl sem er. Leggja fordómana til hliðar þegar umbeðin tónlist höfðar ekki til hennar. Horfa á landslagið og virða tónlistarsmekk annara.

K. Erna hefur starfað með stórum hópi listamanna bæði hér heima og erlendis. Þegar litið er yfir brot af samstarfsfólki er ljóst að söngkona á Íslandi kemur víða við og til að átta sig á fjölbreytileikanum má t.d. nefna Schola cantorum, Carmina, Gríma, Voces Thules, Sigurrós og Thallis Scholars. Wilbird & Peacedrums, Björk, Robin Blaze, Emmu Kirkby o fl. Erna hefur starfað við talsetningar, sungið í teiknimyndum, leikhúsum, bíómyndum, tölvuleikjum og sungið bakraddir hjá fjölda tónlistarmanna bæði á tónleikum og í upptökum.

"En hvar er ég, hvar er röddin mín? Flóran samanstendur af himneskum og tærum tónum, ósyngjanlegum tónum inn í næstum ósyngjanlega hljóma inni lítil og stór rými. Sorgin og lífið í tali og tónum. Þegar ég lýt yfir ferilinn þá upplifi ég sjálfa mig svolítið eins og kameljón sem á samskipti með litabreytingum. Þörf mín fyrir að skapa og fylgja mínum verkefnum eftir hefur alltaf verið sterk og í gegnum árin hef ég fylgt þeirri köllum eftir. Verkefnin hafa verið og eru svo sannarlega fjölbreytileg. Síðustu árin hef ég komið að kennslu og tónlistarsköpun ungra barna og þá hef ég fengið að koma að söngkennslu fólks með ýmiskonar fötlun sem hefur áhrif á tóna og tal. Reynsla mín af þessari vinnu hefur gert mér það ljóst að ég mæti ekki með fyrirfram ákveðnar skoðanir á því hvað er hægt og hvað er ekki hægt.

Ég hef fengið að upplifa tungumál tónlistarinnar á löngum ferli. Tónlistin nærir og græðir. Tónlistin er tungumál tilfinninga. Öll mín reynsla af fjölbreytileikanum er hvatning mín og ástríða fyrir áherslum mínum í þessu lokaverkefni"