Skapandi dans

Mótun handbókar fyrir danskennara í grunnskólum

 
thumbnail_teikningar2.jpg
 

 

Tilgangur þessa meistaraverkefnis er að stuðla að fjölbreyttri danskennslu í grunnskólum og markmið þess að búa til verkfæri, í formi handbókar, sem kennarar geta nýtt í þeim tilgangi.
 
Handbókinni er ætlað að gefa kennurum hugmyndir að skapandi starfi í gegnum dans þannig að þeir geti búið nemendum aðstæður til þess að kynnast fjölbreytileika dansins og skapandi hliðum hans. Handbókin nýtist einnig þeim sem hafa litla sem enga þekkingu á því sviði.
 
Handbókin býður upp á leiðir til að gefa nemendum tækifæri til þess að tjá og túlka skoðanir sínar, hugmyndir og tilfinningar, treysta á sjálfan sig og vinna út frá sér og sínum þörfum í gegnum sjálfstæð og skapandi vinnubrögð. Í gegnum þær geta nemendur upplifað persónulegan vöxt og uppgötvað ýmislegt nýtt um sjálfan sig, jafnvel eitthvað sem þá hafði ekki órað fyrir. Handbókin er sett fram sem hugmyndabanki.
 
Í handbókinni er unnið út frá skapandi dansi en það er dansform þar sem áhersla er lögð á hreyfingu sem tjáningu. Þar er nemandinn í aðalhlutverki og notar færni sína og reynslu til þess að skapa (Gilbert, 2019).
 
Skapandi dans er afar gagnlegt verkfæri í dansnámi sem gefur nemendum færi á að öðlast dýpri skilning á sjálfum sér og umhverfi sínu, sjá og skilja aðra og upplifa samkennd. Í skapandi dansi læra nemendur fyrst og fremst í gegnum eigin líkama þannig að tengsl þeirra við námsefnið verða sterk og skilningur á því eflist á áhrifaríkan hátt (Joyce, 1980).
 
 
thumbnail_teikningar4.jpg
 
Grunnstoðir handbókarinnar eru hugmyndir tveggja fræðimanna í dansi; Rudolf Labans, frumkvöðuls í dansfræðum, og Anne Green Gilberts, danskennara og sérfræðings í skapandi dansi. Meginviðfangsefni þeirra er líkaminn og færni hans, ásamt mikilvægi hreyfingar og hvernig hún mótar skilning okkar á umheiminum.
 
Kennslufræði bókarinnar byggir á kenningum Howard Gardners prófessors og Lev Vygotskys, sálfræðings og kennara, en þeir lögðu báðir áherslu á einstaklingsmiðað nám með því að nýta ólíkar kennsluaðferðir til að styðja við nemendur.
 
Í handbókinni er einnig fjallað um hvernig nemandinn lærir í gegnum líkamann með sómatískri nálgun þar sem innri upplifun líkamans gerir nemandanum kleift að hreyfa sig á eðlislægan máta og litið er á líkamann sem eina heild.
 
Ég kenndi handbókina í grunnskóla þar sem ég kenndi nemendum í 3., 5. og 8. bekk. Ásamt því að fá tvo danskennara sem starfa í grunnskóla til þess að prufukeyra efnið. Aðferðir starfendarannsókna, viðtöl og dagbókarfærslur, voru notaðar til að móta og þróa handbókina.
 
Niðurstöður sýndu að handbókin vekur danskennara til umhugsunar um skapandi vinnu ásamt því að nýtast þeim sem gagnabanki til þess að styðjast við í kennslu í skapandi dansi. Markmið handbókarinnar er að gefa nemandanum tækifæri á að skapa út frá sjálfum sér og uppgötva nýtt hreyfimynstur, og njóta dansgleðinnar.
 
Í gegnum ferlið upplifði ég að bókin tók mið af þessum þáttum ásamt því að gefa kennaranum færi á að leiðbeina og hvetja nemendur til eigin sköpunar. Hún gegnir því hlutverki sínu sem verkfæri kennarans í skapandi dansi.
 
 
thumbnail_img_0221.jpg
 
Ingunn Elísabet Hreinsdóttir
ingunn.elisabethreinsdottir [at] gmail.com
Leiðbeinandi: Ásgerður Guðrún Gunnarsdóttir
Teikningar: Eva Árnadóttir
30 ECTS
2020